141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:46]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna öllum tillögum til lausnar á skuldavanda heimilanna og það verður að viðurkennast og á að viðurkennast að framsókn hefur tekið forustu í því máli, ekki síst með tillögu sinni um 20% leiðréttingu sem sett var fram í byrjun árs 2009.

Ég hef áhuga á að fá svör við nokkrum spurningum sem vakna við lestur þessarar þingsályktunartillögu og í fyrsta lagi hvort framsókn sé nokkuð búin að gefa upp á bátinn 20% leiðréttingarleiðina til að taka á skuldavanda heimilanna. Hvað varðar þessa nýju tillögu um frádrátt vegna innborgunar á höfuðstól, þ.e. frádrátt af tekjuskatti, óttast hv. þingmaður ekki að þessi frádráttur dugi einfaldlega ekki til til að hjálpa þeim sem eru í vanda staddir? Að þessi leið muni hjálpa mörgum en bara allt of lítið til þess að það breyti nokkru?

Að lokum hef ég áhyggjur af því að til þess að þetta breyti einhverju þurfi fólk í raun að nota sparifé sitt eða viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á höfuðstól lánanna, en flestir eru löngu búnir að nýta sparifé til þess að borga niður höfuðstólinn, þeir gerðu það bara fljótlega eftir hrun og eru nú margir hverjir búnir að nýta sér réttinn til þess að taka út séreignarsparnaðinn sinn. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi ekki áhyggjur af því að sú leið sem lögð er til gangi ekki nógu langt og gagnist mjög fáum. Reynsla okkar fram til þessa er sú að ríkisstjórnin grípur yfirleitt þannig leiðir til þess að geta sagt að hún hafi leyst skuldavanda heimilanna.