141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[13:58]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Kosturinn við lánin sem eru í Íbúðalánasjóði er þó sá að í fæstum tilvikum eru þau yfir 100% af fasteignamati svoleiðis að viðbótarkostnaður fyrir Íbúðalánasjóð af þessari leið, þ.e. að fara niður í 100%, er takmarkaður.

Hv. þingmaður nefndi áðan hagnaðinn sem bankarnir hafa sýnt undanfarin ár. Hann er náttúrlega alveg ótrúlegur, að eftir efnahagshrunið skuli bankarnir áfram sýna sambærilegar hagnaðartölur að því er virðist, ekki hvað síst með því að færa upp mat eigna sem fluttar voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með verulegum afslætti. En í stað þess að láta þann afslátt ganga áfram til þeirra sem skulda er verðmætið bara fært upp aftur innan nýju bankanna sem hagnaður hjá bönkunum. Það hlýtur þá að viðhalda spurningunni um hvort ekki sé enn þá svigrúm til að ráðast í meiri leiðréttingar en gert hefur verið. Ef menn fara ekki þá leið, er þá ekki réttlætanlegt að skattleggja bankana sérstaklega?