141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður taldi skattafslátt vegna niðurgreiðslu lána ekki sambærilegan við afslátt vegna framkvæmda, sem hann nefndi sem dæmi, vegna þess að þannig yrðu til svo miklar óbeinar skatttekjur. Það lýsir kannski vandanum sem við stöndum frammi fyrir ef stjórnvöld gera sér ekki grein fyrir því að skuldirnar eru rót alls vanda. Ef ekki er tekið á skuldunum er fólk ekki aflögufært með að nota peninga í annað þannig að skatttekjur skili sér óbeint, eins og hv. þingmaður sagði að þyrfti að vera skilyrði þess að veitt væri eftirgjöf af sköttum. Þetta hangir allt á skuldavandanum. Ef ekki er tekið á honum, ef fólk situr uppi með þessar skuldir þá verða ekki til þær óbeinu tekjur sem eru forsendur þess að veita skattafslátt að mati hv. þingmanns.

Hvað varðar kostnaðinn, hv. þingmaður spurði sérstaklega um kostnað, áður en annað kemur á móti, þ.e. beinan kostnað ef menn reikna allan afsláttinn sem kostnað fyrir ríkið, þá er til þess að líta að það fer að sjálfsögðu eftir því hversu margir nýta sér það úrræði og hvernig það er útfært. Ég lýsti því hér í upphafi að ástæða væri fyrir því að við vildum leyfa ríkisstjórninni að vera með í útfærslunni. En til að gera okkur grein fyrir hvaða tölur er þarna um að ræða var tekjuskattsstofn Íslendinga, í fyrra held ég að það hafi verið, 876,1 milljarður og tekjuskattur 97,4 milljarðar. Við sjáum að þetta er ekki nema rúmlega 10% af tekjuskattsstofninum. Ef þessi skattstofn er færður eitthvað niður mun það að sjálfsögðu kosta einhverja milljarða en það er enginn kostnaður í samanburði við margt annað sem ríkisstjórnin hefur verið tilbúin til að verja fjármagni í. Vel að merkja, þetta eru ekki peningar sem eru glataðir, (Forseti hringir.) þetta eru peningar sem veltast áfram inni í hagkerfinu.

Ég næ því miður ekki alveg að klára svarið, frú forseti, ég verð að halda áfram á eftir.