141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:05]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki svarað síðustu spurningunni öðruvísi en ég gerði áðan með því að benda á að útfærslan til dæmis um hámark og slíka hluti, sem óneitanlega hefur áhrif á heildarkostnaðinn að lokum, eru hlutir sem við skiljum eftir opið til að fá ríkisstjórnina að borðinu með okkur í því að leggja mat á hvað er ásættanlegt í þessu.

Ég gæti svo sem gefið mér einhverjar ákveðnar forsendur út frá tölunum sem ég nefndi áðan og þar með komist auðveldlega að einhverri tiltekinni tölu. En það hefur ósköp lítið að segja ef þær forsendur ganga ekki eftir. Það er hægt eins og við höfum séð hjá Seðlabankanum að skrifa bók á stærð við símaskrá út frá sínum forsendum, en svo höfum líka séð hjá Seðlabankanum að aftur og aftur reynist raunin allt önnur og forsendurnar ganga engan veginn upp, áætlanirnar ganga engan veginn upp.

Kosturinn við þessa tillögu er sá að það er alltaf hagkvæmt á endanum að taka á skuldavandanum. Svo hagkvæmt getur það reynst að gefa skattafslátt að veittur var skattafsláttur, eins og ég nefndi áðan, í heilt ár á sérstöku skattlausu ári.