141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem við ræðum hér, tillögu til þingsályktunar um frádrátt á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

Ég tel að allar hugmyndir séu góðar, þær þurfi að skoða og fara í gegnum kosti þeirra og galla. Kosturinn við þessa tillögu er sá að hún eykur ekki útgjöld ríkissjóðs heldur lækkar tekjur ríkissjóðs, það er fyrsti kosturinn. Það er töluvert atriði. Síðan er það kostur að þetta kemur þeim til góða sem hafa kannski minnst orðið varir við ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, stétt sem sumir hafa í hálfkæringi kallað miðstéttaraulann, þ.e. fólk sem er með sæmilegar tekjur og stendur í skilum með harðfylgi. Það ætlar að standa í skilum en fær hvergi aðstoð því það skuldar ekki nógu mikið, fellur ekki undir 110%-leiðina, er ekki á leið til umboðsmanns skuldara o.s.frv., en borgar alveg undir drep þannig að menn hafa jafnvel ekki efni á að fara í bíó. Þetta kæmi því þeim hópi til góða.

Það eru nokkrir ókostir í þessu og mætti skoða það pínulítið betur. Hér stendur „afborganir af fasteignalánum“, þ.e. ekki vextir. Nú er það þannig í annuitetslánum að afborganir eru einungis 14–20% af ársgreiðslunni fyrstu tíu árin, restin er vextir, síðan verðbætur ofan á allt saman. Ég held að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar verði að breyta þessu að minnsta kosti yfir í það að vera greiðslur af fasteignalánum — það ætti að standa fasteignaveðlánum, en það skiptir svo sem ekki stóru máli. Síðan þarf að hindra menn í að greiða aukaafborgun inn á lánið sem gæti fallið undir þetta, sem sagt tekið lán annars staðar og greitt aukaafborganir inn á lánið og þannig ráðið í rauninni skattskyldu sinni. Það þarf líka að hindra það að þetta séu ekki aukaafborganir.

Svo er annað sem kemur mjög illa út. Það gildir fyrir öll lán. Nú er það svo að Hæstiréttur sagði fyrst að gengistryggðu lánin ættu að vera í krónum, þá héldu menn að það ætti að vera í krónuvöxtum. Nei, hann felldi annan dóm og sagði að reikna ætti vexti sem miðast við jen og evrur o.s.frv. ofan á íslenskar krónur. Um leið gaf hann vissum aðilum lánin. Þetta er óskapleg gjöf að geta á Íslandi verið að borga lán í krónum með jafnvel 1% vöxtum í 6% verðbólgu. Það er náttúrlega bara hrein og klár gjöf miðað við hina sem eru að borga verðtryggingu, vexti og slíkt. En slíkir aðilar fengju afborgunina líka dregna frá skatti. Ég held að það verði nú að undanskilja þá sem eru búnir að fá fasteignalánin sín gefin með dómum Hæstaréttar, það verði að undanskilja þá frá því að fá þessi lán líka til viðbótar. Þetta eru nú kannski hártoganir og atriði sem hægt er að laga auðveldlega í nefndinni.

Það sem er líka slæmt við þetta er að þetta er óháð tímabili. Þeir sem tóku lán á bilinu september 2004 til nóvember 2009, held ég það hafi verið, töpuðu í þeim skilningi að fasteignir hafa til dagsins í dag hækkað minna en lánið, þ.e. þeir skulda hlutfallslega meira. Mikið hefur verið kvartað undan þessu verðfalli á fasteignum. Þeir sem keyptu árin 2006 og 2007 eru kannski verst settir, þeir eru að tapa vegna þess að lánin hafa hækkað miklu meira en íbúðin, hlutfallslega. En þeir sem keyptu fyrir þann tíma, árin 1995, 2000 o.s.frv., eru enn í hagnaði. Lán þeirra hafa enn ekki hækkað jafnmikið og íbúðin. Sá hópur fellur undir þetta líka. Svo náttúrlega án takmarkana. Menn gátu hafa keypt einbýlishús einhvern tímann, tekið það nánast allt að láni, eða 80% eins og þá var kannski, og borgað alltaf af því en skulda dágott enn þá, þeir fá allt í einu frádrátt á afborgunum þó að þeir séu ekki í þeim hópi sem hefur tapað. Þeir eru í hópnum sem hefur grætt. Ég held að það þurfi nú að skoða ýmislegt fleira í þessu.

Svo er annað. Þetta er ekki ætlað til greiðslu á vanskilum. Mér finnst það lágmark að byrjað sé á því að greiða upp vanskil áður en lánið er lækkað til að létta á fólki. Þetta eru nú svona tæknilegar athugasemdir frá mér sem hv. nefnd sem fær málið til skoðunar getur skoðað.

Svo eru það þeir sem eru hjá umboðsmanni skuldara. Það þarf að skoða þá líka því að þeir eru í ákveðnu ferli þar sem á að fella niður skuldir. Það er mjög skrýtið ef á að fara að fella niður afborganir hjá þeim líka. Og skoða þarf þá sem hafa farið í 110%-leiðina, það er sem sagt ýmislegt í þessu sem þarf að skoða.

Svo stendur á síðu tvö að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist. Það verður sáralítið vegna þess að þetta kemur til lækkunar á höfuðstól og hún verður hlutfallslega mjög lítil. Menn munu þurfa að borga kannski 80–90% af því sem þeir greiddu áður, að minnsta kosti. Ráðstöfunartekjurnar aukast því ekki mikið. Ég geri athugasemdir við það.

Svo er hérna talað um að samhliða þessum aðgerðum stjórnvalda færa lánveitendur lán niður í 100% af verðmæti fasteignar. Þetta er sjálfsögð krafa, en hún þyrfti að standa í ályktuninni sjálfri svo hún hafi eitthvert lagagildi eða eitthvert tilvísunargildi. Það er sterkara að hafa það í ályktuninni sjálfri. Ég legg til að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar bæti því við.

Svo er nokkur umræða um Íbúðalánasjóð og sagt að þetta sé gott fyrir Íbúðalánasjóð. Ég er nú ekki alveg viss um það vegna þess að Íbúðalánasjóður fær þarna aukið innstreymi fjár sem ber ekki lengur vexti. Hann þarf að koma því í lóg. Hann er í standandi vandræðum með það í dag að koma uppgreiðslum í lóg. Hann yrði bara verr settur að fá slíkar aukainngreiðslur. Núna er staðan sú að það vill í rauninni enginn eiga lausafé því að ekki er að fá neina ávöxtun á það og Íbúðalánasjóður fær það ekki frekar en aðrir. Veðstaða Íbúðalánasjóðs batnar vissulega eins og annarra lánveitenda. Þegar skatturinn fer að greiða niður afborganir á lánin, lækka höfuðstólinn, þá batnar veðstaða allra kröfuhafa, þ.e. að veðið stendur betur undir láninu.

Mér finnst vanta í frumvarpið eitthvert mat á kostnaði. Hvað kostar þetta ríkissjóð? Mér finnst nú alveg lágmark að menn hefðu reynt að meta það hvað þetta kemur til með að kosta og hvernig þetta kemur út fyrir einstaka fjölskyldur. Ég tel líka mikilvægt að nefna annað. Ef þetta er bara afborgun sem er 14% af greiðslunni fyrsta kastið sem menn borga af láninu, menn eru kannski að borga 100 þús. kr. og fá ekki nema 14 þús. kr. til frádráttar skatti og af því er þá tekinn — þetta lækkar skattinn um einhverjar prósentur, þá er ekki nema hluti af þessum 14 þús. kr. sem fer til lækkunar á höfuðstól. Þetta þarf að reikna allt saman og meta.

Hér hefur nokkuð komið til umræðu lyklafrumvarp sem svo hefur verið nefnt. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur flutt það frumvarp, mjög jákvætt, nema mér finnst það eigi að heita lyklakippufrumvarpið. Mér finnst alveg fráleitt, frú forseti, og það getur ekki verið að menn ætli að fara að lækka lán hjá fólki eða að fólk geti skilað íbúðinni sinni sem er ofveðsett og haldið eftir sparisjóðsinnstæðunum, hestinum, sumarbústaðnum, jeppanum, allt saman skuldlaust. Menn þurfa að líta á allar eignirnar sem viðkomandi á og hann gefi þær allar inn, geti afhent þær allar og geti síðan skilað lyklunum að þeim öllum samtímis. Annað er afskaplega ófélagslegt, bara hreinlega ófélagslegt að maður sem jafnvel borgar auðlegðarskatt — einn slíkur hringdi í mig um daginn, hann borgar auðlegðarskatt, hann er ekki illa staddur, en hann er með mjög ofveðsett húsnæði. Hann kvartaði undan því við mig af hverju hann fái ekki bætur frá ríkinu, frá hinu opinbera, svo hann geti fellt niður lánin á íbúðarhúsnæðinu sínu. Honum fannst það eðlilegt. Mér fannst það ekki eðlilegt.