141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Afsakið hvað ég kem seint í ræðustól, ég taldi að einn ágætur þingmaður hefði verið á undan mér á mælendaskrá, en sá virðist hafa fallið frá orðinu.

Mig langar til að byrja á að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur orð hennar í andsvari við formann Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hún telur að Framsóknarflokkurinn sé í fararbroddi við að leysa skuldamál heimilanna. Fyrir þau orð ber að þakka, sérstaklega í ljósi þess að viðkomandi þingmaður hefur nú þegar stofnað annan stjórnmálaflokk. En þess má líka geta að hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur verið ötul baráttukona og lagst á sveif með okkur í Framsóknarflokknum við að leiðrétta skuldir heimilanna.

Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fór yfir þá tillögu til þingsályktunar sem við framsóknarmenn hér á þingi stöndum öll að. Allir þingmenn flokksins flytja þetta mál og í framsöguræðu hefur verið farið yfir það hvers vegna farin er sú leið að leggja fram þingsályktunartillögu og fela hv. efnahags- og viðskiptaráðherra að koma fram með frumvarp. Við viljum fá alla að borðinu og líka að forða því að þessi mál verði umdeild og að ekki verði ráðist á þessa tillögu okkar á sama hátt og ráðist var á efnahagstillögur okkar fyrir síðustu kosningar.

Það bar aðeins á þeim keim í andsvari frá hv. þm. Helga Hjörvar hér áðan, þar sem hann lagði eiginlega að því drög að tillagan gengi ekki upp. Hann kallaði eftir upplýsingum um kostnað og hvað þetta þýddi í útgjöldum fyrir ríkissjóð, en hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svaraði því mjög vel. Þær upplýsingar eru einfaldlega ekki settar fram á þessum tímapunkti vegna þess að nokkrir óvissuþættir eru til staðar. Í fyrsta lagi er ekki vitað hve margir koma til með að nýta sér úrræðin, en að sjálfsögðu yrði farið nákvæmlega yfir þá greiningu í frumvarpinu sem þingsályktunartillagan boðar. Þá yrðu jafnvel, eins og gjarnan er gert í góðum frumvörpum, settar upp töflur með mismunandi forsendum.

Ég hef fulla trú á því að ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt verði farið í þá vinnu, frú forseti, og lýsi því hér yfir.

Það sem mér finnst mest heillandi í þessari tillögu eru þau jákvæðu áhrif sem þessi leið hefði á íslenskt samfélag, ekki síður þá sem skulda íbúðalán. Ég nefni sem dæmi að ráðstöfunartekjur heimilanna kæmu til með að aukast sem yrði til þess að fjárfestingar og einkaneysla mundi aukast. Hv. þm. Pétur Blöndal er ekki alveg sammála þessu en það gefur augaleið að um leið og minna fjármagn fer í greiðslur á lánum hefur fólk meiri peninga á milli handanna. Þarna er líka sá hvati sem er lífsnauðsynlegur íslensku samfélagi nú, með þessari tillögu myndast hvati til að gefa allar tekjur upp til skatts. Þarna erum við bæði að forða því að fólk vinni svarta atvinnustarfsemi og taki þátt í hinu svarta hagkerfi sem hefur stóraukist frá hruni. Það sannar, svo að dæmi sé tekið, það gat sem komið er í virðisaukaskattskerfið, það vantar á milli 30 og 40 milljarða á einu ári inn í virðisaukaskattskerfið af innlendri sölu á vörum og þjónustu. Aðgerðin vinnur sem slík gegn svartri atvinnustarfsemi.

Maður heyrir sögur af því að fólk kemur til Íbúðalánasjóðs og bankastofnana og fer í greiðslumat til að kaupa íbúðarhúsnæði þar sem þarf að gefa upp tekjur. Svo segir fólk: Já, en svo er ég í þessari og þessari vinnu og hef svo og svo miklar tekjur, þær eru greiddar svart. Slíkir peningar eru ekki á borðinu. Við þurfum að fá þá upp á yfirborðið, líka til að auka jafnræði í því að allir leggi sitt til samfélagsins.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að áætlaðar vaxtabætur fyrir árið 2013 verði rúmir 12 milljarðar. Þarna værum við líka að flytja til fjármagn í sama vasanum, því að samkvæmt tillögunni sparast hluti þeirra vaxtabóta. Vaxtabætur hafa verið auknar mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar til að koma til móts við hinar himinháu stökkbreyttu skuldir. En þá er ekki öll sagan sögð því að þar eru peningar einungis að fara á milli í stað þess að virkilega sé verið að borga lánin niður. Þessi tillaga gengur svo sannarlega út á það að borga lánin hraðar niður.

Ég vil einnig taka fram að þessi aðgerð, eins og kom fram í máli framsögumanns, felur í sér þá forsendu að lánveitendur færi lánin niður í 100%, hætti þessari óskiljanlegu 110%-leið sem hér var farin, þá er hægt að núllstilla lánin. En það kemur líka fram hér að þetta er til bráðabirgða, þessi lög sem fyrirhugað er að semja eiga einungis gilda í þrjú ár og um þau lán sem þegar hafa verið tekin. Ég hef fengið fyrirspurn um það hvort þetta gildi til framtíðar um lán sem verða tekin. Þetta er skýrt. Þetta á að gilda til þriggja ára og um þau lán sem þegar hafa verið tekin og þau sem þá þegar hafa verið flutt niður í 100% af lánastofnunum. Þannig fer að ganga á höfuðstólinn.

Andstæðingar okkar segja að þetta sé ekki nógu vel útskýrt hjá okkur og þetta sé flókin aðferð. Svo er bara alls ekki, frú forseti. Þetta er mjög einföld aðferð og hefur verið farið yfir áhrif hennar hér og fordæmi fyrir henni í framsöguræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar varðandi til dæmis skattafslátt á hlutabréfakaup o.s.frv.

Rætt hefur verið um það að ekkert hafi verið gert í verðtryggingarmálum frá hruni. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um heimilin frá 2009, frá því að þetta þing var kosið, og lagt til margar tillögur varðandi það að taka á skuldavanda heimilanna, því má enginn gleyma. En því miður hafa tillögur okkar ekki gengið fram, líklega vegna þrjósku ríkisstjórnarinnar. En ég vil benda á það í þessari umræðu að við höfum nú þegar lagt fram tillögu um hámarkshækkun á verðtryggingu, um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta sem verður rædd hér síðar, það er á þskj. 9, 9. mál, þannig að það er mjög framarlega í málaröðinni. Við erum hér aftur með það þjóðþrifamál að koma til móts við verðtrygginguna sem er kannski mesta ógnin við íslensk heimili. Ekki virðist vera samkomulag um það í samfélaginu að afnema verðtrygginguna með öllu þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi flutt frumvörp og þingsályktunartillögur um þau efni alla tíð síðan hún settist á þing eða mjög oft að minnsta kosti, mig minnir í ein 11 skipti. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra verið forsætisráðherra í tæp fjögur ár og ekki bólar á þessu baráttumáli hennar þrátt fyrir að hún fari með forsætið í ríkisstjórninni. Þarna erum við framsóknarmenn að koma enn og aftur með tillögur til að gera fólki með verðtryggð lán lífið bærilegra á meðan verið er að vinna að því að hægt sé að afnema verðtryggingu með öllu.

Þegar þetta er tekið saman, þessi þriggja ára aðgerð í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu, og svo verðtryggingarfrumvarpið okkar, gætum við kannski litið fram á árið 2015 til 2016, að þá verði komin niðurstaða í þau dómsmál sem farin eru af stað og eru að fara af stað; að skera úr um það samkvæmt neytendalöggjöf Evrópusambandsins hvort verðtryggingin á íslensk lán séu flóknir afleiðusamningar sem ekki eigi stoð í lögum. Nú kemur til með að reyna á það fyrir dómstólum. Við sjáum hve langan tíma tók að leysa úr málunum með gengistryggðu lánin fyrir dómstólum og enn eru einhverjir 10 eða 11 dómar sem á eftir að leysa úr, hvort og hvernig sú hlið af lánasamningum verður leyst.

Ég gef því þrjú til fjögur ár að leyst verði úr því hvort verðtryggingin sé flókinn afleiðusamningur, en þarna erum við þá alla vega að gera tilraun til að brúa það bil þar til niðurstaða kemur í þeim dómsmálum. Miðað við það sem ég hef skoðað varðandi verðtrygginguna á neytendalán til íbúðakaupa bendir allt til þess að um flókna afleiðusamninga sé að ræða sem eru ólöglegir í neytendarétti. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi gæti dómsmál farið á þann hátt að verðtryggingin verður dæmd ólögleg. Líklega fæst ekki niðurstaða í það fyrr en dómstólar kveða upp úr um það þrátt fyrir að einhver vilji sé til að afnema (Forseti hringir.) verðtrygginguna. Líklega þarf að dæma hana ólöglega.