141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hefja þingveturinn á að ræða mikilvæg mál eins og það sem við ræðum hér. Það miðar að því að koma til móts við venjulegt fólk, fólk sem tók lán í aðdraganda hrunsins, fyrir hrun, og hefur þurft að horfa upp á verðtryggð lán hækka mánuð eftir mánuð, sérstaklega í kjölfar hruns krónunnar. Við framsóknarmenn höfum gagnrýnt mjög harðlega á þessu kjörtímabili sem nú er senn á enda, að skort hefur á aðgerðir til handa millistéttinni í landinu, skuldugu fólki. Þetta er fólk sem fór ekki óvarlega í aðdraganda hrunsins en er margt í miklum vandræðum vegna hrunsins og vegna tekjutaps sem fjölmargar fjölskyldur hafa lent í og vegna þess að húsnæðislánin og afborganirnar hafa hækkað.

Á sama tíma hefur þessi þjóðfélagshópur, venjulegt fólk, horft upp á að þeir sem fóru óvarlega í aðdraganda hrunsins, keyptu sér ný og flott hús, hreinsuðu jafnvel allt innan úr þeim fasteignum og endurinnréttuðu allt og skuldsettu sig gríðarlega, hafa fallið inn í áætlanir ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að koma til móts við skuldug heimili. Það hefur verið búið til kerfi þar sem þeir sem fóru allra óvarlegast í skuldsetningu í aðdraganda hrunsins hafa fengið aðstoð, á meðan þeir sem fóru ekki jafnskarpt fram hafa nær enga aðstoð fengið. Svo við gætum nú sanngirni hafa vaxtabætur verið hækkaðar að einhverju marki, en það breytir því ekki að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað gríðarlega á umræddu tímabili.

Hér er komin fram tillaga frá þingflokki framsóknarmanna um að nota skattkerfið sem hvata til þess að auðvelda venjulegu íslensku fólki að greiða niður skuldir sínar með því að fara þessa leið um þriggja ára skeið. Fólki verði veitt umbun fyrir að greiða inn á húsnæðislán sín í formi einhvers konar skattafsláttar. Með því erum við í raun að styrkja innviði íslensks samfélags vegna þess að það er engin sátt í dag um það aðgerðaleysi sem þúsundir íslenskra fjölskyldna hafa horft upp á á undangengnum þremur árum.

Eins og frægt er orðið lögðum við framsóknarmenn fram tillögu í upphafi ársins 2009 um almenna leiðréttingu á húsnæðislánum landsmanna. Þá var einstakt tækifæri til þess að láta kröfuhafana axla þyngri byrðar á efnahagshruninu og létta undir með íslenskum fjölskyldum. Það tækifæri var ekki nýtt. Þess vegna þurfa stjórnmálaflokkar að upphugsa nýjar leiðir hvernig við getum komið til móts við heimilin í landinu. Þetta er viðleitni til þess.

Ég vil þakka fyrir ágætar undirtektir og vona að fulltrúar allra flokka séu tilbúnir að skoða þessa leið, kosti hennar og galla, vegna þess að menn mega ekki einvörðungu líta á hvað hún kostar í beinhörðum peningum heldur verðum við líka að líta til þeirra heildaráhrifa sem þessar aðgerðir mundu skila.

Þessi þingsályktunartillaga kveður á um að skattafslátturinn sem fólki yrði veittur yrði nýttur beint til niðurgreiðslu á höfuðstól viðkomandi fasteignaláns. Við viljum fela fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa lagasetningu með þessu markmiði. Þannig munum við vonandi sjá að samfélagið og fólk verði viljugra til að greiða af lánum sínum, vegna þess að með þessari leið fer fólk að sjá raunverulegan ávinning af því að strita fyrir og standa straum af rekstri húsnæðis síns.

Eins og fram hefur komið í umræðunni teljum við margt mæla með þessari leið. Við myndum jákvæðan hvata til sparnaðar. Við myndum líka, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á áðan, ákveðinn hvata til þess að fólk verði viljugra að gefa upp tekjur sínar. Ég hef það á tilfinningunni og margir aðrir að svört atvinnustarfsemi hafi aukist til muna í íslensku samfélagi. Reyndar er ekki að undra í ljósi þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á skattkerfinu að undanförnu sem við framsóknarmenn höfum mótmælt mjög harðlega vegna þess að ýmiss konar tekjutengingar, svo sem vaxtabætur og barnabætur, og breytingar á tekjuskattskerfinu sem slíku, hafa leitt af sér að það borgar sig hreinlega ekki fyrir fólk að gefa upp tekjur þegar komið er upp fyrir ákveðna krónutölu. Það er vegna þess að þá flyst viðkomandi fjölskylda í hærra skattþrep, barnabæturnar nær hverfa, vaxtabæturnar minnka. Allt miðar þetta að því að hvetja fólk til að sýna fram á að það hafi lægri tekjur en raunin er. Þessu þurfum við að berjast gegn. Mér finnst að samfélagið sé að mörgu leyti komið í það form sem það var í á 10. áratug síðustu aldar þegar hinir svokölluðu jaðarskattar bitu mjög í barnafólk og þá sem reyndu að starfa og sýna dugnað á íslenskum vinnumarkaði.

Það má líka vænta þess að vanskil muni minnka í bankakerfinu. Trúlega græða allir á því. Og með lækkandi höfuðstól húsnæðislána minnka jafnvel greiðslur ríkissjóðs vegna vaxtabótakerfisins. Að sama skapi má færa fyrir því rök að aðgerð sem þessi gæti mögulega dregið úr atvinnuleysi og aukið hagvöxt í íslensku samfélagi, ekki veitir af þegar kemur að rekstri ríkissjóðs.

Um leið og ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum vera að ræða þetta uppbyggilega mál og að flestir séu tilbúnir til að skoða hvaða leiðir eru færar til að koma til móts við venjulegt fólk í landinu þegar kemur að skuldamálum heimilanna, vil ég lýsa þeirri von minni að nú munum við ná árangri með því að ráðast í alvöru aðgerðir til þess að koma til móts við skuldug heimili.

Þetta mál er á allan hátt jákvætt. Það er lagt fram þannig að allir sem vilja, á þingi og úti í samfélaginu, geta haft áhrif á það í hvaða skrefum við tökum þetta, hvaða upphæðir er um að ræða o.s.frv. Ég vonast til þess að bragur Alþingis í vinnubrögðum í tengslum við þessa þingsályktunartillögu verði annar en þegar við mæltum fyrir flatri leiðréttingu á lánum heimila landsins árið 2009. Vonandi var mönnum alvara í þeim ræðum sem haldnar voru í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að hér ætti að verða meiri samstaða á milli þingmanna. Ég ætla að trúa þeim orðum sem birtust þar í mörgum ágætum ræðum þingmanna úr öllum flokkum.

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við framsóknarmenn skulum hafa fengið að mæla fyrir þessari tillögu í upphafi þings. Hún sýnir hvaða áherslu við leggjum á málefni skuldugra heimila og að við viljum koma með lausnir til þess að koma til móts við þau heimili sem hafa nær enga aðstoð fengið allt frá fjármálahruni, heimili sem eiga heiður skilinn fyrir að hafa reynt að ná endum saman um hver mánaðamót á sama tíma og laun hafa hlutfallslega lækkað og fólk horft upp á aðföng hækka og lánin þar með talið.

Nú er kominn tími til aðgerða. Ég vonast til að þessi þingsályktunartillaga sem við framsóknarmenn flytjum fái jákvæða umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Það er mjög brýnt að við vinnum þetta mál hratt. Nú verður það sent út til umsagnar til helstu hagsmunaaðila í samfélaginu. Við héldum fund á dögunum sem var vel sóttur þar sem formaður Framsóknarflokksins kynnti þessar hugmyndir og þær fengu ágætar viðtökur. Nú skulum við passa okkur á því að detta ekki ofan í gömlu hjólförin Ég vonast til þess að fulltrúar ríkisstjórnarflokkana muni ekki einungis sjá dökkar hliðar á málinu vegna þess að það eru framsóknarmenn sem flytja það, því ég hef sannfæringu fyrir því að þetta sé mál sem horfi til mikilla framfara fyrir íslenskt samfélag.