141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var hárrétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði um þau úrræði sem skuldugum heimilum hafa boðist frá hruni. Dæmi eins og frysting lána — hvað er það? Bara frestun á vandanum. Það er bara verið, ef ég má nota svo ósmekklegt orðalag, að lengja í ólinni fyrir marga í samfélaginu. Það er engin lausn að frysta lán og höfuðstóllinn hækkar um hver mánaðamót og vandinn verður enn meiri. Hann varð enn meiri þegar því úrræði lauk hjá mörgum fjölskyldum.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að þessi fælni við að taka ákvörðun um að ráðast að rót vandans hefur leitt af sér mikla stöðnun í íslensku efnahagslífi. Eins og fram hefur komið hefur störfum á Íslandi fækkað á undangengnum árum. Það er með ólíkindum að áróðursmeistarar ríkisstjórnarinnar hafa gumað sig af minnkandi atvinnuleysi sem stafar kannski meðal annars af því að fólk er að hverfa af vinnumarkaðnum, fólk er að fara af atvinnuleysisbótum yfir á sveitarfélögin í landinu og það er líka að hverfa úr landi. Ef það er dæmi um velferð og minnkandi atvinnuleysi í samfélaginu, eru menn náttúrlega að mála raunveruleikann allt öðruvísi en hann er í raun og veru.

Þannig að ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki að það eigi að skoða þessa hugmynd, þennan hvata fyrir fólk að geta greitt inn á höfuðstól lána og fengið þar með einhverja umbun í skattkerfinu, hvort hún gæti leitt til þess að við náum meiri sátt — ég segi ekki algjörri sátt en meiri sátt — fyrir það fólk sem hefur orðið algjörlega útundan í lausn á vanda skuldugra heimila eftir efnahagshrunið 2008.