141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[14:51]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Það fer vel á því að í dag eru á dagskrá mörg mál sem varða skuldavanda heimilanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ýmislegt er þar enn óleyst og eiginlega er þetta óskiljanleg flækja. Það er illa fyrir okkur komið. Stjórnvöld hafa ekki haft kjark eða hugrekki til að ráðast á rót vandans. Við erum endalaust í einhverjum smáskammtalækningum.

Á sama tíma og mér finnst gott að við séum með mörg þingmál um þennan vanda á dagskrá þá hryggir það mig að sjá að hér er eiginlega enginn að ræða þessi mál. Þetta finnst mér eiginlega táknrænt fyrir þann flótta sem stjórnarmeirihlutinn er á undan þessum málaflokki. Búið er að ráðast í alls konar úrræði, rándýr mörg hver, mjög flókin, sem hafa ekki gagnast eins og var fullkomlega fyrirsjáanlegt vegna þess að þau taka ekki á rót vandans, þau taka ekki á verðtryggingunni og þau taka ekki á forsendubrestinum. Á meðan svo er er þetta eins og að slást við vindmyllur.

Ég vil ekki gera lítið úr þeim úrræðum sem hafa verið lögð fram. Mörg þeirra ættu alltaf að vera til, en þau gagnast ekki við þessar aðstæður. Það er vonlaust mál.

Ég ætla að mæla fyrir þingsályktunartillögu sem varð til í kjölfar viðræðna okkar í Hreyfingunni við formenn ríkisstjórnarflokkanna í kringum síðustu áramót þar sem við þrýstum á að koma þessum málum á dagskrá.

Ég ætla að lesa tillöguna sjálfa. Ég kemst ekki yfir að lesa alla greinargerðina, hún er átta síður og mikið af ítarefni. Tillagan hljómar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fjármála- og efnahagsráðherra skipi þriggja manna starfshóp, óháðan hagsmunaaðilum, sem útfæri áætlun um almenna niðurfærslu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila. Áætlunin skal byggð á því að þær skuldir sem til eru komnar vegna hækkunar vísitölu neysluverðs frá árslokum 2007 og eru umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands verði fluttar frá heimilunum í sérstakan afskriftasjóð fasteignaveðlána auk breytinga á verðtryggingarákvæðum slíkra lána. Starfshópurinn geri tillögu til ráðherra um stofnun sjóðsins og nauðsynlegar lagabreytingar. Starfshópurinn ljúki störfum ekki síðar en 1. nóvember 2012. Miða skal við að áætlunin komi til framkvæmda ekki síðar en 1. janúar 2013.“

Við lögðum þessa tillögu fram á síðasta þingi. Hún hefur síðan verið uppfærð, þ.e. tölur og annað í henni. Hugmyndin er að allir komi að lausn vandans, allir sem málið varðar, og stofnaður verði sérstakur skuldaafskriftasjóður fyrir forsendubrestinum sem við teljum verðbætur umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans vera, sem er í raun loforð ríkisins til lántakenda um hvernig þeir geta hagað lífi sínu efnahagslega, og sjóðnum skapaðar tekjur til 25 ára til að standa undir útgjöldum þannig að afskriftirnar verði greiddar niður á 25 árum.

Greiðslurnar kæmu í raun úr fjórum áttum. Sérstakt vaxtaálag yrði lagt á öll fasteignaveðlán sem næmi í upphafi 0,25% en lækkaði árlega um 0,01%, uns það yrði 0,10% þegar tíu ár væru eftir af endurgreiðslutímabilinu og héldist óbreytt eftir það. Þetta yrði þá hlutur lántakandans en á móti kæmi höfuðstólsleiðréttingin sem hann fengi. Þótt vaxtabyrðin í framtíðinni yrði eitthvað meiri teljum við að það sé réttlætanlegt. Lántakandinn fær alla vega meira en hann greiðir.

Annar liðurinn snýst um að leggja árlegan tímabundinn eignarskatt á eignir innlánsstofnana og HFF-bréfaeign annarra en lífeyrissjóða. Nemur hann 0,195% í upphafi, en lækkar um 0,005% árlega og endar því í 0,075% á 25. ári. Miðað við forsendur sem gera ráð fyrir 5% árlegri eignaaukningu yrði sá hlutur 6,28 milljarðar fyrsta árið, en 7,8 milljarðar síðasta árið.

Vaxtabætur eða það sem við höfum kallað eltandi vaxtabætur eru í raun hlutur ríkisins, þ.e. sú fjárhæð sem ríkið hefði hvort sem er ráðstafað í vaxtabætur til heimilanna ef ekki hefði komið til þessi niðurfærsla á skuldum. Þess í stað færu þeir fjármunir í að niðurgreiða eða greiða inn á lán sjóðsins. Þessu fylgdi því ekki aukinn kostnaður fyrir ríkið. Í stað þess að ríkið greiði vaxtabætur vegna forsendubrestsins greiðir það sömu upphæð til að greiða niður sjóðinn.

Miðað við að útgreiddar vaxtabætur árið 2011 voru 12 milljarðar og að 22,4% lækkun verði á þeim verða þetta 2,69 milljarðar fyrsta árið. Miðað er við að þessi upphæð lækki hlutfallslega í samræmi við höfuðstól afskriftasjóðsins og verði því komin niður 158 millj. kr. síðasta árið.

Fjórði hlutinn eða afgangurinn af fjármagni sjóðsins verður fenginn með sérstökum tímabundnum eignarskatti á eignir lífeyrissjóða. Nemur hann 0,14% í upphafi, en lækkar árlega og endar í 0,07% á 25. ári. Miðað er við að forsendur sem gera ráð fyrri 5% árlegri eignaaukningu lífeyrissjóða og verður hlutfall lífeyrissjóðanna 2,8 milljarðar kr. fyrsta árið, en 4,5 milljarðar kr. síðasta árið.

Venjulega þegar einhver minnist á leiðréttingar á lánum og forsendubrestinum reka menn upp ramakvein og segja að þá sé verið að taka af gamla fólkinu og það megi ekki skerða lífeyrisgreiðslur. Hér er um mjög lágar upphæðir að ræða í heildarsamhenginu. Þess má geta að lífeyrissjóðirnir hafa hagnast gríðarlega á verðtryggingunni frá hruni. Það er ekki nema eðlileg krafa að þeir komi að þessu líka. Við skulum ekki gleyma því að við erum öll hluti af lífeyrissjóðakerfinu. Við erum í raun og veru að tala um eigin fjármuni.

Ég held að það sé nauðsynlegt að fara í leiðréttingar sem taka á forsendubrestinum. Ég held að það yrði jákvæð innspýting í hagkerfið sem við þurfum á að halda. Þessi tillaga byggir á jafnræði. Við viljum að allir fái forsendubrestinn leiðréttan óháð því hvað menn tóku að láni eða hvort þeir geti hugsanlega greitt. Sumir geta ekki gert neitt annað en að greiða af lánum. Þeir geta ekki farið í bíó, eins og Pétur Blöndal þingmaður nefndi í ræðu fyrr í dag, vegna þess að hver einasta króna fer í lánin.

Það er eitt í þessu. Þessi tillaga tekur bara til verðtryggðra fasteignalána. Gengislán eru í mikilli óvissu núna. Þau hafa verið dæmd ólögleg, en svo hafa þau aftur verið dæmd lögleg eða lánaform eins banka. Það er samt óljóst hvort það á við um öll lán frá þeim banka eða ekki. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta endar allt saman. Ég hef miklar áhyggjur af þeim málum, ég verð bara að játa það hér og nú.

Fjármálafyrirtækin fengu leyfi til að vera með samráð. Ég hef miklar efasemdir um að það hafi verið réttlætanlegt í þessu máli. Ég held að þingið þurfi að fylgjast vel með því. Það getur vel verið að við þurfum að fara í einhverjar aðgerðir til að koma á jafnræði í þeim málaflokkum. Þeir sem tóku t.d. lán snemma hjá Íslandsbanka hafa horft á höfuðstól lánanna sinna tvöfaldast — ég er ekki að tala um 50%, ég er að tala um 100%, algjöra tvöföldun — og fengu nánast enga leiðréttingu eftir þá lagasetningu sem þingið fór í. Það fólk er í raun verr sett en hefði það enga leiðréttingu fengið vegna þess að það er nú með verðtryggð lán á seðlabankavöxtum og stökkbreyttan höfuðstól. Þetta er nokkuð sem við getum ekki látið viðgangast í þjóðfélaginu.