141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir með þingmönnum Hreyfingarinnar og lýsa yfir brýnni nauðsyn þess að farið verði í almenna leiðréttingu ásamt öllum þeim öðrum úrræðum sem þegar er búið að innleiða sem og þeim úrræðum sem við erum að ræða hér í dag. Þessi þingsályktunartillaga er mjög vel unnin hvað varðar framkvæmd og fjármögnun, en markmið hennar er auðvitað fyrst og fremst að finna leið til að fjármagna almenna leiðréttingu án þess að sú fjármögnun lendi á einhvern hátt á ríkinu eða Íbúðalánasjóði.

Ég hef hins vegar tvær athugasemdir við þessa útfærslu. Þær eru ekki mjög alvarlegar, þetta er meira tæknilegt atriði sem nefnd sérfræðinganna væntanlega ræðir. Það er gert ráð fyrir að þessir eigendur að afskriftasjóðnum séu lífeyrissjóðir, innlánsstofnanir og þeir sem eiga íbúðabréf. Þessir aðilar sjá eign sína lækka um sem nemur þessari 20% leiðréttingu. Vandamálið við þessa útfærslu er að skuldatryggingarálag þessara aðila gæti hækkað verulega sem mundi þá þýða að vaxtastigið í landinu hækkaði um leið. Það er ein ástæða þess að ég er hlynntari útfærslunni í peningamillifærsluleiðinni sem felst í því að sjóðurinn sé í raun og veru í eignarhaldsfélagi Seðlabankans.

Ég vil bara spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur hvort hún sé ekki sammála því að það sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir það að skuldatryggingarálag hækki um leið og farið (Forseti hringir.) er í þessa útfærslu.