141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Þetta voru nokkuð margar spurningar. Ég vona að ég komist í að svara þeim öllum.

Fyrst hvað varðar sérstaka vaxtaálagið, við lögðum upp með að allir tækju þátt í þessu. Þess vegna lögðum við þetta til. Allar tölur í þessu eru þannig að það má hnika þeim til. Það má lengja tímann og lækka byrðina eða jafnvel sleppa einum póstinum. Þetta er bara leikur með tölur. Það er hægt að reikna þetta út á marga vegu.

Ég hef verið mjög fylgjandi því að það sem mér finnst vera eiginlega ránsfengur bankanna sé skattlagt í botn. Ég vil fá þær tekjur inn í ríkissjóð og ég vil að þær verði notaðar í leiðréttingar á lánum heimilanna. Þar erum við að tala um gríðarlega fjármuni.

Nú hef ég mínútu í síðasta atriðið með samningaviðræðurnar og hvað það var sem strandaði á. Við og formenn stjórnarflokkanna vorum ósammála um mikilvægi þess að fara í skuldaleiðréttingar. Við vorum hlynnt því. Hvað varðar tillöguna fannst mér ekki sterk rök fyrir því að hún yrði slegin út af borðinu. Einn þáttur sem þó var nefndur og hér hefur verið nefndur er skuldatryggingarálagið. Það var rætt og þótti verra og gæti líka hækkað skuldatryggingarálag ríkissjóðs.