141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður rifjaði það upp sem ég nefndi í ræðu minn að sporin hræða. Hv. þingmaður benti á að á sínum tíma hefði verið skipaður hópur innan efnahags- og skattanefndar, sem hún tók þátt í, en það starf hafi lognast út af. Það er það sem ég hræðist, ég kom inn á það í ræðu minni.

Hv. þingmaður fagnaði því hversu jákvæðir þeir sem tækju þátt í umræðunni væru. Ég vil nálgast þetta mál með jákvæðum hætti. Ég vil ekki slá það út af borðinu. Ég virði mjög það sem fram kom í máli framsögumanns, að það vantar oft upp á að við berum virðingu fyrir skoðunum annarra og úrlausnum sem aðrir sjá og þá gildir einu hvaða málefni við erum að ræða.

Ég hef fylgst töluvert með þessum málum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á það í ræðu sinni áðan að hann hefði verið að vinna töluvert í því í sumar að reyna að greina þennan vanda og skilgreina hvernig hægt væri að ná utan um ákveðinn hóp o.s.frv. Það er þá innlegg inn í umræðuna og mjög athyglisverðar upplýsingar koma þar fram. En ég er hins vegar það bjartsýnn maður að eðlisfari að ég trúi því að þó menn hafi hrokkið í þann gír að vilja henda þessu öllu í ruslafötuna þá hljóti menn að fara að skilja að verkefnið er það stórt að við verðum að taka upp ágreiningsmál stjórnmálaafla eða stjórnmálaflokka. Við bara verðum að gera það, það er skylda okkar að gera það. Ég er því bjartsýnn þó að sporin hræði og ég viðurkenni það. Þess vegna lagði ég aftur til að þessi leið yrði farin með þá von í brjósti að niðurstaðan yrði ekki hin sama og hv. þingmaður var að vitna í áðan.