141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er ánægjulegt að mér finnst eins og það sé ákveðin von fyrir næsta vetur ef við höldum rétt á spöðunum, ef við getum borið virðingu fyrir mismunandi skoðunum og sérstaklega ef við getum borið virðingu fyrir mismunandi þekkingu þeirra sem eru á þingi og mismunandi sýn. Fulltrúalýðræðið felur það í sér að við erum fulltrúar fyrir mismunandi hópa og þurfum að koma til móts við mismunandi hópa út frá mismunandi forsendum.

Við þingmenn Hreyfingarinnar höfum alltaf reynt að vinna á þennan hátt þar sem við festum okkur ekki á flokksklafa heldur leitumst við að stuðla að þverpólitískri samvinnu. Fram undan er kosningavetur og ég geri mér grein fyrir að alls konar samkeppni og slíkt er í gangi. Ég geri mér vonir um að þeir sem komi sterkast út úr þessum lokaspretti þingsins verði þeir sem geta tamið sér samvinnu og virðingu fyrir skoðunum annarra.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki þeirri skoðun með mér.