141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að auka á væmnina í þingsal sem mér finnst alltaf miklu betra en hitt. Mér finnst mjög ánægjulegt að heyra viðhorf þingmannsins og mér finnst ég hafa tekið eftir því að mjög margir vilja vinna eftir þessum nótum í vetur. Það er mjög mikilvægt að það er á ábyrgð okkar þingmanna að sýna fram á að þingið er ekki bara það sem blasir við í þingsalnum heldur sú góða samvinna sem getur átt sér stað á nefndasviði.

Ég vonast til að allar þær tillögur sem taka sérstaklega á þessum málaflokki verði teknar fyrir í viðeigandi nefnd eða kannski í fimm manna nefnd innan fastanefndar og farið verði mjög ítarlega yfir þær og athugað hvort eitthvað þurfi að samþætta. Mér finnst til dæmis sumar af þeim upplýsingum sem komu fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal vera athyglisverðar, t.d. hversu mörg heimili þetta eru nákvæmlega o.s.frv. Því fleiri sem vinna að því að afla upplýsinga af heilindum vegna einhvers málefnis, því betri verður vinnan sem kemur út úr því. Það liggur í hlutarins eðli.

Síðan langar mig að segja hið sama og hv. þingmaður um samvinnuna. Ég er krónísk bjartsýnismanneskja og ég held að þótt sporin hræði sé alltaf betra að halda áfram inn í framtíðina með jákvæðu hugarfari en gera ráð fyrir því að allt mistakist. Þá er alveg öruggt að það gerir það. Ég mun áfram skora á þingmenn, sem sumir hverjir eru sannanlega sama sinnis, að við nýtum þennan vetur til góðrar samvinnu.