141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að okkur hv. þm. Birgittu Jónsdóttur greinir ekki mikið á um það hvernig vinnubrögðin eiga að vera. En það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þær forsendur sem við unnum með fyrir kannski hálfu ári, einu ári eða einu og hálfu ári eru allt aðrar en þær forsendur sem við erum hugsanlega að tala um í dag. Vandamálið hefur breyst. Það er búið að taka á sumum hlutum þess en aðrir blasa við.

Svo er líka mikilvægt að við áttum okkur á því að við megum heldur ekki alltaf vera að leita að hinni einu fullkomnu lausn. Það er mjög hættulegt. Við finnum hana mjög seint. Við eigum að vera ófeimin við að segja: Jú, við teljum að þetta sé sú lausn sem er mjög æskilegt að fara í nú, en við verðum að vera viðbúin því ef við náum ekki utan um vandamálið og vera fólk til að viðurkenna það. En það sem mér hefur oft fundist vera akkillesarhællinn í þessu er að þegar búið er að taka ákvörðun, þá á hún að vera hin eina rétta lausn. Svo ef menn sjá að það hefur ekki allt gengið eftir sem ætlað var, segja mjög margir hv. þingmenn: Þetta er auðvitað lausnin, í stað þess að ræða kannski þá agnúa sem hafa komið í ljós við úrlausnir á málum. Það er mikilvægt að gera það, það skilar okkur áfram í vinnunni og þá eigum við að segja það. Við vitum innst inni að við erum ekki búnir að finna hina einu lausn. Þó svo að við mundum taka allar þessar tillögur og hefðum hóp sem legði allt sitt af mörkum og hefði ekkert annað markmið en leysa vandamálið, megum við ekki trúa því að við séum þar með búin að leysa það. Það getur vel verið að við þurfum að leysa eitthvað annað vandamál sem kemur upp seinna því tímarnir breytast. Þannig verðum við að nálgast verkefnið.