141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[15:50]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir elju hans og dugnað í að taka til umræðu ýmsa þætti sem lúta að stjórnarskipunarmálum. Ég er sammála sumu í því sem hann hefur fram að færa en öðru er ég algjörlega andsnúinn. Í því frumvarpi sem hann hefur lagt hér fram til stjórnarskipunarlaga get ég tekið undir þá meginhugsun að breytingar á stjórnarskrá öðlist ekki gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar í þjóðaratkvæði. Ég tel það algjöra forsendu, það dugi ekki að þingið afgreiði málið og síðan fari það í gegnum tvennar þingkosningar vegna þess að það er alveg hárrétt sem kemur fram í máli hans að þjóðin greiðir í fæstum tilfellum atkvæði um það stjórnarskrárákvæði sem hefur verið breytt heldur er hún að fara í almennar pólitískar kosningar.

Hins vegar finnst mér þingmaðurinn setja allt of háar girðingar í því hvernig hann vill stilla því upp hvernig hægt sé að fara fram með breytingar á stjórnarskrá. Annars vegar miðar hann við þingsal og vill að það þurfi 40 þingmenn hið minnsta af 63 í dag, þ.e. að einn ágætur stjórnmálaflokkur, tökum sem dæmi annaðhvort Samfylkingin í dag eða Sjálfstæðisflokkurinn, hafi þá stöðu að geta stöðvað framgang breytingar sem ríkur meiri hluti þingsins er tilbúinn að fara fram með. Í annan stað vill hann að ríkur meiri hluti þjóðarinnar veiti því stuðning í þjóðaratkvæði að mál nái fram að ganga, annars vegar yfir helmingsþátttöku, og væntanlega ríflega það, þ.e. að minnst 5/10 á kjörskrá greiði breytingunni atkvæði sitt. Mér finnst þetta allt of háar girðingar og get á engan hátt fallist á það ákvæði. Ég spyr þingmanninn hvort honum finnist ekki sjálfum verið að girða þarna fyrir að almennur vilji nái fram að ganga. Eru þau rök sem hann setur fram í greinargerð sinni (Forseti hringir.) ekki í raun og veru ýkt eins og þau eru sett fram?