141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[15:54]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel þarna tvennu ólíku saman að jafna. Í því fyrirkomulagi sem við höfum í dag eru engir þröskuldar, það er eingöngu einfaldur meiri hluti í þingsal eða einfaldur meiri hluti þjóðarinnar í þjóðaratkvæði eins og við höfum beitt okkar reglum, andspænis því að hér er tillaga frá hv. þm. Pétri H. Blöndal um að setja upp þessa háu þröskulda sem ég nefndi áðan.

Það þarf líka að hafa í huga að ekkert segir að það sé endilega sá meirihlutavilji eða minnihlutavilji og staða í þingsalnum sem endurspeglist í samfélaginu til þeirra einstöku mála sem er verið að fjalla um. Þess vegna er það mikilvægt, og ég veit að við erum sammála um það, að þjóðarviljinn ráði að endingu niðurstöðu í þessum málum.

Hv. þingmaður setur fram í greinargerð sinni til rökstuðnings þröskuldunum að sú staða gæti komið upp að hagsmunasamtök næðu að knýja fram breytingar, sem flestir væru áhugalitlir um, og fengið samþykktar á þingi með dræmri þátttöku — þá væntanlega þingsins, að það væri lágmarksþátttaka í atkvæðagreiðslu á þingi — og síðan væri lágmarksþátttaka í þjóðaratkvæði upp á kannski 15–20% og þar af væri rétt liðlega helmingur þeirra sem styddi slíka breytingu. Ég verð að segja að það væri illa komið fyrir þjóðinni ef við stæðum frammi fyrir slíkri stöðu í umræðu um þjóðskipun okkar og stjórnarskrá að það kallaði ekki á sterkari viðbrögð, umræðu og áhuga þjóðarinnar til þess hvernig slíkir hlutir gengju fram.

Ég hef ekki heyrt betur en að einmitt sú umræða og þær breytingar sem eru núna uppi á borðum um stjórnarskrána kalli fram almenna umræðu í samfélaginu. Ég á ekki von á öðru en að stór hluti þjóðarinnar mæti til kosningar 20. október (Forseti hringir.) til að láta vilja sinn í ljós.