141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum því miður nokkur dapurleg dæmi um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það var kosið í Reykjavík um Vatnsmýrina, ég man ekki alveg hlutfallið en það var mjög dræm þátttaka. Þegar kosið var til stjórnlagaráðs var 34% þátttaka, ef ég man rétt. 66% þjóðarinnar, 2/3, sátu heima, höfðu engan áhuga á málinu. Ég tel mjög slæmt ef þriðjungur þjóðarinnar setur allri þjóðinni stjórnarskrá.

Ég vil að menn haldi til haga ákveðnum stöðugleika í þjóðfélaginu. Stjórnarskráin er undirstaðan, ef við breytum einni kommusetningu í einni grein í stjórnarskránni eru allir hæstaréttardómar sem byggja á því ákvæði úr gildi fallnir. Það myndast mikil óvissa, svo ég tali ekki um ef við ætlum að breyta heilli stjórnarskrá, þá verður hérna óvissa í 10, 20, 30 ár þangað til Hæstiréttur er búinn að túlka allar greinar stjórnarskrárinnar.

Mér finnst að það þurfi að vera mjög góð sátt um stjórnarskrána en ég er það sveigjanlegur í hugsun, frú forseti, að mér finnst eðlilegt að þetta fari til nefndarinnar sem skoði þetta eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu hér. Svo sendir hún málið til umsagnar og fer í gegnum það hvort þetta séu skynsamlegir þröskuldar eða ekki. Menn geta lækkað þá en þurfa þá að vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera, séu nákvæmlega meðvitaðir um hvað það þýðir að lækka þröskuldana. Það þýðir meiri óreiðu í þjóðfélaginu, þá er stöðugt verið að breyta grundvellinum.

Þetta er nokkuð sem nefndin mun væntanlega ræða og ég legg áherslu á að menn stefni að sátt í þjóðfélaginu, ekki endalausum deilum. Það eru nefnilega mjög mörg atriði og miklu fleiri sem sameina fólk en sundra því.