141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[16:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með störfum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gegnum fulltrúa nefndarinnar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem hefur upplýst þingflokk Framsóknarflokksins um það starf sem þar fer fram. Ég ætla ekki að taka undir með hv. þingmanni að sá ágæti þingmaður vinni ekki vinnuna sína þegar kemur að þessum málum. Hv. þingmaður hefur gagnrýnt framsetningu spurninganna rétt eins og ég og ég er henni sammála í mörgu þegar kemur að ágreiningsefnunum sem ég nefndi hér varðandi skýrleika spurninganna.

En ég held að hægt sé að gagnrýna eitt, af því að við tölum um að þjóðin eigi að eiga lokaorðið þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni, að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram undan er ekki bindandi. (MT: Nei.) Hún er í raun og veru bara skoðanakönnun. Hér er verið að tala um að beina tilteknum breytingum á stjórnarskránni til fólksins í landinu og að það hefði lokaorðið, það væri bindandi atkvæðagreiðsla. Þess vegna höfum við framsóknarmenn rætt um ýmsa meinbugi á þjóðaratkvæðagreiðslunni. En ég tek það hins vegar fram að ég er einn af þeim sem vilja sjá breytingar á stjórnarskránni og það gera líka aðrir þingmenn Framsóknarflokksins. Ég held að ekki sé nokkur einasti þingmaður hér inni sem ekki sér einhverja meinbugi á stjórnarskránni. Mér finnst það mál sem við ræðum hér vera svo gott og með það góða hugmyndafræði að ég sakna þess að við skulum ekki sjá þingmenn, hvern á fætur öðrum, trilla upp í ræðustól Alþingis til að ræða þetta mál frá öllum hliðum, ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um það. Hér er nefnilega um stórmál að ræða sem snertir breytingar á grundvallarplaggi íslensks samfélags sem er stjórnarskráin. Ég vonast því til þess að við sameinumst um að gera frumvarpið að lögum hið fyrsta.