141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

stjórnarskipunarlög.

19. mál
[16:12]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég er einn flutningsmanna þessa máls, að mig minnir í þriðja sinn. Það er ástæða fyrir því að mér hefur fundist rétt að vera það þótt ég sé í fullri vinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og jafnframt í Hreyfingunni og ræ að því öllum árum að við fáum nýja stjórnarskrá. Það eru eiginlega tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi finnst mér þetta vera mjög góð breyting. Mér fyndist ljómandi gott ef við gætum borið stjórnarskrárbreytingar undir þjóðina og hún gæti svarað og að sú niðurstaða yrði bindandi. Ég held að það færi vel á því.

Hin ástæðan er að ég vil hafa bæði belti og axlabönd í þessu máli því að það hefur sýnt sig að það eru ýmis ljón í veginum þegar kemur að stjórnarskrárbreytingu. Ég hef litið á þetta sem eina leið vegna þess að ég trúi ekki á eina lausn, ég trúi aldrei á eina lausn. Ég held að alltaf sé hægt að fara fleiri en eina leið eða leysa málin með fleiri en einum hætti og ég held að margar leiðir geti verið jafngóðar. Þá leið sem farin er núna og ég hef tekið þátt í að vinna að er óþarfi að rekja, en hér var skipuð stjórnlaganefnd, haldinn þjóðfundur, skipað stjórnlagaráð og lagt fram úrvalsfrumvarp sem við höfðum til umfjöllunar í skýrsluformi síðasta vetur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar hefur 1. flutningsmaður þessa frumvarps setið stöku sinnum og mér hefur fundist mikill fengur að því hafa hann í nefndinni því að hann hefur verið mjög einlægur í áhuga sínum á málinu. Mér finnst verst að hafa ekki haft hann allan tímann vegna þess að hann hefur yfirsýn yfir alla þá vinnu og umræður sem fram hafa farið í nefndinni, sem eru mun meiri en fram hefur komið og menn hafa viljað viðurkenna.

Þetta er ein leið til að breyta stjórnarskránni. Hún getur þess vegna, ef með þarf, orðið leiðin til að koma á frumvarpi stjórnlagaráðs og gera það að nýrri stjórnarskrá ef menn vilja eða komast í ógöngur með aðrar leiðir.

Ég þakka 1. flutningsmanni þessa máls áhuga sinn á stjórnarskrárbreytingum og eljusemi í málinu.