141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á þrennum lögum, lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála (endurupptökunefnd). Þetta er 12. mál þingsins á þskj. 12. Auk mín flytja þetta mál hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þráinn Bertelsson, Margrét Tryggvadóttir og Skúli Helgason. Hér er um endurflutning á málinu að ræða, það er flutt í þriðja sinn. Það var fyrst flutt á 139. þingi en náði þá ekki inn á dagskrá þingsins. Það var flutt aftur á síðasta þingi og hlaut þá afgreiðslu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd en náði ekki að koma inn á dagskrá þingsins fyrir lok vorþings.

Í raun má segja að efniviðurinn í þetta frumvarp hafi verið svör eða afrakstur þriggja fyrirspurna og svara hæstv. innanríkisráðherra sem komu hér fram á 139. þingi. Þetta eru þrjár fyrirspurnir sem fylgdu sem fylgiskjal við flutning málsins á síðasta þingi á þskj. 8. En eins og ég segi eru þetta fyrirspurnir sem voru lagðar fram og svarað á 139. þingi um fjölda beiðna um endurupptöku, um afdrif slíkra beiðna, um aðkomu dómara að slíkum málum og um afgreiðslutíma slíkra umsókna.

Frú forseti. Efni frumvarpsins er, ef ég byrja aðeins á meginmarkmiðum þess, að bregðast við ákalli um sjálfstæða og gagnsæja stjórnsýslu sem er mjög nauðsynlegt í fámenninu hér á landi. Hér er lagt til nýmæli, þ.e. að sett verði niður endurupptökunefnd sem fjalli um allar beiðnir um endurupptöku mála í stað Hæstaréttar. Það nýmæli er einnig að finna í frumvarpinu að endurupptökunefnd skuli birta niðurstöður sínar sem er mikilvæg réttarbót í samræmi við aukna áherslu á gagnsæi í stjórnsýslunni. Í frumvarpinu felst ekki áfellisdómur yfir dómurum eða einstökum ákvörðunum heldur er hér stigið skref til að auka trúverðugleika með því að skapa svona armslengdarfjarlægð milli dómara og ákvörðunar um endurupptöku mála fyrir Hæstarétti og í héraði.

Frú forseti. Málið snýst um það að Hæstiréttur sjálfur og jafnvel sömu dómarar og dæmt hafa áður í máli hafa tekið ákvörðun um hvort mál skuli endurupptekið eða ekki. Niðurstaðan, þ.e. samþykki eða synjun endurupptöku, hefur ekki verið gerð opinber eða rökstudd opinberlega eins og aðrar ákvarðanir og dómar Hæstaréttar.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir er nokkuð breytt frá síðasta þingi að því leytinu til að ákvæði um endurupptökunefndina eru sett inn í lög um dómstóla en voru á síðasta þingi í lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála. Með frumvarpinu eru engar efnislegar breytingar settar fram á skilyrðum um endurupptöku mála, það er aðeins skipt út í reynd orðinu „Hæstiréttur“, það er tekið út, og inn er sett „endurupptökunefnd“ í staðinn.

Við gerð frumvarpsins, auk þess að skoða svörin sem ég nefndi frá hæstv. innanríkisráðherra sem bárust á 139. þingi, var leitað fanga á Norðurlöndunum, einkum í Noregi og Danmörku og staldrað við norska kerfið og þangað sótt fyrirmynd að því sem hér er lagt til, þ.e. í norsku dómstólalögunum, í 394. gr., er að finna ákvæði um skipan endurupptökunefndar sem hefur það hlutverk sem hér er meðal annars lagt til að verði.

Hvers vegna er þetta nauðsynlegt, frú forseti? Það er jú þannig eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu á bls. 4 þar sem vísað er til þeirra svara sem bárust frá hæstv. innanríkisráðherra á 139. þingi, að þá liggja ekki fyrir opinberlega neinar upplýsingar um það aðrar hversu mörg mál berast sem eru beiðni um endurupptöku, annaðhvort mála sem hafa verið dæmd í Hæstarétti áður eða mála sem ekki hefur verið áfrýjað og er óskað endurupptöku á. Þetta hefur hvergi verið birt opinberlega en svör hæstv. ráðherra bera það með sér að ekki er óalgengt, getur maður sagt, að beiðnir berist um endurupptöku mála fyrir Hæstarétti, þ.e. samkvæmt heimild í lögum um meðferð einkamála, en um endurupptökubeiðnir á sviði sakamála og endurupptökubeiðnir á málum sem ekki hefur verið áfrýjað hef ég engar upplýsingar og liggja hvergi fyrir slíkar upplýsingar. Af því tilefni hef ég meðal annars lagt fram fyrirspurn um hvað varðar endurupptökubeiðnir samkvæmt lögum um meðferð sakamála og vænti þess að fá þær upplýsingar einhvern tíma á allra næstu vikum.

Það kemur sem sagt fram í þeim svörum að á tíu ára tímabili, árunum 2000–2011, barst Hæstarétti 41 beiðni um endurupptöku mála sem rétturinn hafði áður dæmt. Aðeins þrjár þeirra voru samþykktar. Það kemur einnig fram að í 16 tilvikum tók einn dómari, sem hafði tekið dómsákvörðun áður, þátt í ákvörðun um endurupptöku. Í fimm tilvikum voru það tveir dómarar sem tóku slíka ákvörðun aftur varðandi eigin mál og í einu tilfelli voru það allir dómararnir sem dæmdu í viðkomandi máli í Hæstarétti sem tóku ákvörðun um hvort endurupptaka skyldi heimiluð eða ekki. Þarna er líka upplýst, frú forseti, að allt að 427 dagar liðu frá því að Hæstarétti barst beiðni um endurupptöku á þessu tíu ára tímabili og þar til umsækjanda var tilkynnt um niðurstöðu, eða synjun réttara sagt.

Þetta ástand, frú forseti, er ekki í samræmi við það sem við viljum sjá er varðar gagnsæi og áreiðanleika, óháða niðurstöðu, í stjórnsýslunni og alls ekki í dómskerfinu. Þess vegna er þetta mál flutt hér. Eins og ég sagði áðan skilaði allsherjar- og menntamálanefnd áliti núna í vor og það álit er að finna á þskj. 1475, það er 8. mál 140. löggjafarþings. Þar kemur fram að meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar telur mikilvægt að bregðast við gagnrýni sem fram hafi komið, m.a. í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, um að nauðsynlegt sé að tryggja hlutleysi við ákvörðun um endurupptöku mála. Enn fremur telur meiri hlutinn frumvarpið fela í sér mikilvæga réttarbót og lagði til að það yrði samþykkt með tiltekinni breytingartillögu.

Nokkrar umsagnir bárust til nefndarinnar, m.a. frá Ákærendafélagi Íslands, en eins og kemur fram í nefndarálitinu er þar um þann misskilning að ræða í því áliti að talið er að flutningsmenn telji almennt að of fá mál hljóti endurupptöku og þess vegna sé málið flutt. Það er rangt, frú forseti, og eins og kemur greinilega fram í greinargerð með þessu áliti er ekki verið að fella dóma um niðurstöður eða afstöðu Hæstaréttar varðandi endurupptöku, enda er enginn fær um það. Rökstuðningurinn liggur hvergi fyrir. Það er rétt að hægt er að fá upplýsingar um fjöldann eins og ég hef rakið hér áður. Markmiðið með flutningi þessa frumvarps er því alls ekki að fjölga endurupptökum heldur eingöngu að þær verði gagnsæjar og að þær séu teknar af óháðum aðila og Hæstiréttur sé ekki settur í svo óheppilega aðstöðu að þurfa að gerast dómari í eigin sök.

Það bárust einnig umsagnir frá Mannréttindaskrifstofunni eins og ég hef áður nefnt og frá ríkissaksóknara, minnisblað frá innanríkisráðuneyti en einnig frá einstaklingi sem benti á að í frumvarpinu væri ekki tekið á því hvernig ætti að fara með beiðnir um endurupptöku mála sem ekki hefur verið áfrýjað. Það má segja að við þeim athugasemdum sem þarna komu fram við vinnslu málsins, einnig frá réttarfarsnefnd, hefur frumvarp þetta tekið nokkrum breytingum. Breytingarnar eru einkum hvað varðar skilyrði til þess að taka sæti í endurupptökunefndinni því að allsherjar- og menntamálanefnd benti á að eðlilegt væri að allir þeir sem þar í sætu væru löglærðir og við því hefur verið orðið. Fjölda nefndarmanna, sem í fyrra frumvarpi var fimm, hefur verið fækkað niður í þrjá og segja má að það sé samkvæmt ábendingu innanríkisráðuneytisins og til þess að draga úr mögulegum kostnaði og það hefur verið tekið inn í frumvarpið til samræmis að endurupptökunefnd fjalli einnig um endurupptöku óáfrýjaðra mála.

Frú forseti. Haft hefur verið ítarlegt samráð um framsetningu málsins við réttarfarsnefnd og við innanríkisráðuneyti. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir stuðning við framgang málsins í heild og aðstoð við að setja það í þann búning sem það nú er í.

Breytingarnar á forminu felast aðallega í því að ákvæði um endurupptökunefnd eru sett inn í dómstólalögin og þá er einnig að finna bráðabirgðaákvæði um það hvernig fara skuli með endurupptökur sem berast áður en lögin taka gildi. Stærsta efnislega breytingin er kannski sú að til samræmis er verið að leggja til að dómum sem ekki hefur verið áfrýjað verði einnig vísað hvað varðar endurupptöku til endurupptökunefndar en ekki til Hæstaréttar.

Frú forseti. Ég tel að það sé mikilvæg réttarbót fólgin í frumvarpinu. Það tryggir gagnsæi, upplýsingar og rökstuðning um ákvörðun sem byggir þá á ábyrgð þeirra sem í endurupptökunefnd sitja. Óháð og gagnsæ afgreiðsla slíkra mála er mjög mikilvæg. Við viljum að samfélag okkar allt og ekki síst dómskerfið sé alveg hafið yfir allan vafa um að það sé að dæma í eigin sök og það verður að vera ljóst hverjar forsendur hvers dóms eða ákvörðunar eru.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði um aðstoð við framsetningu málsins. Ég treysti því að það samráð og sá mikli áhugi sem ég hef fundið fyrir hjá réttarfarsnefnd og hjá hæstv. innanríkisráðherra ásamt þeim sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd og ekki skal ég gleyma flutningsmönnum frumvarpsins, að allt þetta verði til þess að málið fái gott brautargengi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég legg til að því verði vísað þangað eftir þessa umræðu, frú forseti.