141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum núna þau mál sem þingflokkar á Alþingi leggja hvað mesta áherslu á og eru væntanlega forgangsmál þeirra. Við Framsóknarmenn höfum mælt fyrir um úrræði í dag til að leysa úr skuldavanda þúsunda íslenskra heimila. Á eftir þessu máli ætlum við að ræða um sókn í atvinnumálum, hvernig við getum horft fram á veginn og eflt íslenskt hagkerfi til framtíðar. Það virðist ekki veita af því vegna þess að í yfirliti í Morgunblaðinu í dag kemur fram af hálfu formanna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við ein 17 ákvæði samkomulags sem hún gerði við aðila vinnumarkaðarins. Ég hefði kosið að það væri forgangsverkefni stjórnarinnar að taka á sig rögg og standa við það samkomulag sem hún hefur undirritað við aðila vinnumarkaðarins. En það er önnur saga.

Hins vegar hvað þetta mál varðar, einkavæðingu Búnaðarbankans og Landsbankans á sínum tíma, þá er það rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði hér fyrr í umræðunni að þau mál voru skoðuð á vettvangi fjárlaganefndar allítarlega á sínum tíma, á árunum 2003 og 2004, að mig minnir. Það eru að verða tíu ár síðan. Til þess að hafa það á hreinu þá leggjumst við framsóknarmenn síður en svo gegn því að skoða þessi mál. Við höfum hins vegar bent á, og mér finnst það eðlilegt, sérstaklega í ljósi þess að við vitum ekki einu sinni hverjir það voru sem keyptu Búnaðarbanka og Íslandsbanka í hinni seinni einkavæðingu, að við skoðum þau mál líka.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái einhverja annmarka á því að við einfaldlega skoðum í heild sinni, ekki að hluta, einkavæðingu bankanna á undangengnum árum.