141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er höggvið í sama knérunn hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum enda er þeim málið skylt. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson arkaði með Morgunblaðið upp í ræðustól til stuðnings þess að Framsóknarflokkurinn horfði fram á veginn. Þetta er í annað skipti að mig minnir að þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi komið hér og veifað (Gripið fram í: Framsóknarflokksins.) Morgunblaðinu — þingmaður Sjálfstæðisflokksins kom hér í gær og veifaði Morgunblaðinu, það var reyndar röng frétt en betra en engin. Ég velti því fyrir mér hvort það hæfi hreinlega ræðustól þingsins og hvort það rúmist innan þess sem telst hæfilegt í ræðum hér að koma með Morgunblaðið í ræðustól, miðað við það sem í því stendur og hvaða boðskap það flytur.

Ég áttaði mig ekki á hvort einhver spurning fólst í máli þingmannsins nema þá sú sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson bar upp hér áðan eða hugleiðingar um að fyrst það væri verið að skoða aðkomu Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi ráðherra, og Valgerðar Sverrisdóttur, hvers nafn einkavæðingarskjölin eru útbíuð í, hvort ekki væri þá rétt að skoða eitthvað meira í leiðinni svona til að halda jafnvæginu í pólitíkinni.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Einkavinavæðing bankanna í byrjun 10. áratugarins var þeim sem að henni stóðu til skammar. Það var verið að færa ríkiseigur í hendur flokksfélaga og flokksvina á silfurfati. Það er ekki verið að gera það í dag. Nú er reynt að greiða úr þeim rústum og því þrotabúi sem þeir atburðir sem þá gerðust og þær ákvarðanir sem þá voru teknar kölluðu yfir þjóðina. Að kalla (Forseti hringir.) það einkavæðingu og bera það saman við þá pólitísku spillingu sem fólst í einkavæðingunni 2002 er (Forseti hringir.) eiginlega ekki hægt að ræða.