141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:40]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er allt satt og rétt sem hv. þingmaður sagði hér áðan um að þúsundir heimila vilja fá leiðréttingu sinna mála. Leiðréttingar á hverju? Hvers vegna skekktist bókhald heimilanna í landinu? Hvers vegna hækkuðu lán heimilanna? Hvers vegna hækkuðu skuldirnar? Hvers vegna rýrnuðu lífskjörin? Hvernig skyldi standa á því að það hafi gerst? Var það vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar? (BJJ: Já.) Heldur betur ekki. (BJJ: Jú, jú.) Heldur betur ekki, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. (Gripið fram í.) Þó að hann vilji gjarnan trúa því sjálfur þá kemur það samt sem áður skýrt fram. Þegar maður horfir á þá báða félaga hér úti í sal, hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, þá sést að þeir trúa ekki einu sinni sjálfum sér (Gripið fram í: Jú.) þegar þeir halda þessu fram. Þegar eitt stærsta efnahagshrun sem hefur orðið í vestrænu ríki — reyndar heldur annar þingmaðurinn því fram að það sé ímyndun, það hafi ekki gerst í raunveruleikanum, þetta sé plat. (Gripið fram í.) Þetta sé bara blöff hjá vinstri mönnum. Þetta sé lygi, það hafi aldrei orðið neitt hrun á landinu, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði í þingræðu fyrir rúmu ári. Það er fyrir það sem heimilin í landinu eru að blæða.

Virðulegi forseti. Þess vegna þurfum við meðal annars að rannsaka það mjög gaumgæfilega hvernig á þessu stóð, hvernig stóð á því að teknar voru svo kolrangar ákvarðanir sem höfðu þessar gríðarlega alvarlegu afleiðingar í för með sér fyrir heimilin í landinu og þjóðina alla til langs tíma. Þær voru teknar á pólitískum forsendum, með pólitískum markmiðum fyrst og fremst og engu öðru. Þess vegna þarf að leiða það í ljós hvað raunverulega gerðist, hvaða hagsmunir voru raunverulega í húfi, hvers vegna ákvarðanir voru teknar og hver meiningin á bak við þær var.