141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskylda þeirra.

10. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir máli Hreyfingarinnar. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með síðari breytingum. Það er rétt að taka fram að við höfum lagt þetta frumvarp fram áður og leggjum það nú fram aftur í nánast óbreyttri mynd. Með því eru lagðar til breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka og eru þær í samræmi við markmið laganna um að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gegnsæi í fjármálum, sem og að auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.

Þessi háleitu markmið voru sett fram árið 2006 þegar þessi lög voru upphaflega samþykkt. Helstu breytingar frumvarpsins felast í því að þær leggja bann við framlögum lögaðila til stjórnmálasamtaka og takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr., en þetta mark er 400 þús. kr. í dag. Þó skal það vera þannig að framlög sem eru hærri en 20 þús. kr. skulu gerð opinber innan þriggja daga frá því að þau voru móttekin. Þetta er í góðum samhljómi við tillögur GRECO um fjármál stjórnmálaflokka á Íslandi. Þau ágætu samtök töldu mikilvægt að framlög til stjórnmálaflokka yrðu gerð opinber fyrir kosningar. Þá gætu kjósendur áttað sig á því fyrir fram ef um einhver hagsmunatengsl væri að ræða.

Þetta tengist náttúrlega líka máli sem hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið, en stjórnmálaflokkar hafa hreinlega verið kærðir til lögreglu vegna þess að einhverjir telja að þeir hafi tekið við styrkjum frá tengdum aðilum. Ríkisendurskoðun er samkvæmt þessum lögum falið það hlutverk að skoða slík tengsl og fylgjast með þessu öllu saman en hefur jafnframt lýst því yfir að það sé mjög erfitt.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög en þau sem minni eru. Lagt er til að stjórnmálasamtök fái fjárframlag sem þarf til þess að reka skrifstofu og fundaraðstöðu af hóflegri stærð í hverju kjördæmi og að þau fái einnig framlög til þess að greiða framkvæmdastjóra laun sem og starfsmanni í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Þá verði fjárframlög til þingflokka þau sömu fyrir alla flokka.

Hvað varðar framlög vegna kosninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir jöfnu framlagi til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á landsvísu en bjóði stjórnmálasamtök ekki fram í öllum kjördæmum fái þau fjárframlag í samræmi við fjölda frambjóðenda þeirra sem hlutfallstölu af 126, sem eru fullir listar í öllum framboðum. Hér leggjum við sem sagt til að sá aðstöðumunur sem hefur verið á starfi stjórnmálaflokka og framboða verði að einhverju leyti jafnaður. Eftir sem áður geta stjórnmálaflokkar fengið styrki og innheimt félagsgjöld frá félögum sínum og þar af leiðandi munu stærri stjórnmálasamtök væntanlega fá meira fé með þeim hætti. En það er alveg ljóst að stjórnmálaflokkar þyrftu að breyta starfsemi sinni með einhverjum hætti, ef til vill sérstaklega í kosningabaráttu.

Ég hef lagt til á öðrum vettvangi, það tengist ekki þessu frumvarpi enda fjallar það eingöngu um fjármál stjórnmálaflokka, að það væri ráð að takmarka auglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðlum við tilkynningar um fundi eða atburði vegna þess að eðli auglýsinga eða þeirra boðskipta sem eiga sér stað í auglýsingum er þannig að það næst aldrei nein dýpt með þeim. Ef lagt er í umræðu er það alltaf í svolitlum glansmyndastíl. Þetta er yfirborðslegt og flatneskjulegt og búin til á auglýsingastofum einhver glansmynd af stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, og boðin verða ekki málefnaleg. Þetta mundi, held ég, vera til bóta og gera umræðuna dýpri, hún mundi færast yfir í prentmiðla og annað, þannig að við fengjum meiri dýpt í umfjöllun stjórnmálaflokka um sjálfa sig og stefnumál sín.

Ég hef einnig beitt mér fyrir því að sett yrði sú skylda á að minnsta kosti hinn ríkisrekna fjölmiðil, sem er rekinn fyrir fé okkar allra, að sinna betur lýðræðislegum skyldum sínum. Það eru náttúrlega fordæmi fyrir því mjög víða, til dæmis í Bretlandi hjá ríkisútvarpinu þar þar sem stjórnmálaflokkum er úthlutaður ákveðinn tími til að kynna málefni sín. En ég læt máli mínu lokið að sinni.