141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

formleg innleiðing fjármálareglu.

57. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt athugað. Þess vegna velti ég upp þeirri hugmynd í greinargerð með þingsályktunartillögunni hvort verið gæti að við ættum einfaldlega að stjórnarskrárbinda regluna og að einungis megi brjóta regluna ef einhver efnahagsleg vá er fyrir hendi sem kallaði á slíkar aðgerðir og að til þess að brjóta regluna þyrfti samþykki tveggja þriðju hluta þingheims. Og jafnframt að ef ríkjandi stjórnvöld brjóta regluna yrðum við að fremja stjórnarskrárbrot. Því mundi fylgja mikill pólitískur kostnaður vegna þess að stjórnarandstaðan mundi auðvitað benda á það samstundis.

Hitt er annað mál að glíman við að koma böndum á stjórnmálamenn er eilíf. Við sjáum hvernig fór fyrir Grikklandi, þeir svindluðu einfaldlega á bókhaldinu hjá sér, tóku liði út fyrir bókhaldið og annað slíkt sem kom þeim í koll. Þessi regla er því ekki algild regla sem leysir öll vandamál til frambúðar. Aftur á móti held ég að reglan geti þjónað sem góður grunnur og ef með fylgja hefðbundnar lagfæringar á bókhaldi ríkisins sem þurfa að vera stanslaust í gangi, er ég sannfærður um að markmiðinu með reglunni, þ.e. að styðja betur við peningamálastjórnina og hemja hagsveifluna, verði náð.