141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

7. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, á þskj. 7, það er 7. mál þingsins.

Frumvarpið er flutt hér fimmta sinni. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hefur mælt fyrir frumvarpinu fjórum sinnum, allt frá 135. þingi, en ásamt honum eru hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Þór Saari og sú sem hér stendur flutningsmenn að frumvarpinu.

Hér er gerð tillaga um að leiðrétta lýðræðishalla sem er í kjörstjórnum, þ.e. að í yfirkjörstjórnum og landskjörstjórnum skuli framboði sem á fulltrúa á Alþingi en fær ekki kjörinn fulltrúa í þessar kjörstjórnir, heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni.

Í greinargerð kemur fram að kosningarrétturinn er einn mikilvægasti rétturinn í lýðræðissamfélagi. En lýðræði er ekki tryggt þótt kosningarréttur sé til staðar, eins og menn þekkja af mýmörgum dæmum af kosningasvindli í ríkjum þar sem einn flokkur hefur fengið að bjóða fram eða þar sem ríkjandi stjórnvöldum er tryggður sigur í kosningum fyrir fram. Kjörstjórnir gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja að kosningar fari rétt og eðlilega fram og eðlilegt hlýtur að teljast að allir flokkar eða framboðslistar sem fulltrúa eiga á Alþingi geti tekið þátt í störfum landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna. Hið sama á við um sveitarstjórnarkosningar.

Sú leið sem hér er lögð til kallar ekki á fjölgun í kjörstjórnunum sjálfum en gefur flokkum og framboðslistum sem hér hafa verið raktir rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa til starfa með kjörstjórnunum. Þannig er tryggt að rödd allra heyrist en um leið viðurkennt að það er jafnmikilvægt að lítill stjórnmálaflokkur geti á lýðræðislegan hátt fylgst með gangi kosninga eins og stór flokkur.

Síðasta vor afgreiddi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frumvarpið með jákvæðum hætti og lagði til að það yrði samþykkt með tiltekinni breytingu sem flutningsmenn hafa tekið inn í það frumvarp sem hér er flutt.

Í nefndarálitinu er tekið sterklega undir röksemdir sem fluttar eru með þessu frumvarpi, jafnframt því sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vekur athygli á því að tímabært sé að endurskoða kosningalög og nauðsynlegt sé að fara yfir athugasemdir og ábendingar, meðal annars skýrslu úttektarnefndar á vegum ÖSE sem gerð var um framkvæmd alþingiskosninga á Íslandi 25. apríl 2009.

Ég vænti þess, frú forseti, að þar sem mjög skammt er síðan hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lauk umfjöllun um frumvarpið með jákvæðum hætti að það muni hljóta skjóta framgöngu í þingsölum og fyrir nefndinni strax á þessu hausti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þessari umræðu lokinni.