141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

atvinnumál.

[15:20]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að störfum fækkaði og vinnumagnið á Íslandi dróst mjög skarpt saman með hruninu og reyndar var sú þróun farin af stað mánuðina þar á undan, enda hafði verið hér mjög ofspenntur vinnumarkaður sem hafði þanist út árin þar á undan, m.a. með miklu innstreymi erlends vinnuafls. Það lætur því nærri að störfum hafi fækkað um 12–15 þúsund á tiltölulega skömmum tíma, úr rúmlega 180 þúsundum niður í 167–168 þúsund. En sú þróun stöðvaðist á árinu 2009 og eftir það hefur störfum ekki fækkað heldur fjölgað, en það sem þarf að mæla hér líka er ekki bara fjöldi starfandi á vinnumarkaði heldur vinnumagnið og vinnustundirnar og bera í þeim efnum saman rétta hluti. Það er alveg ljóst að vinnumagnið er tekið að aukast umtalsvert í landinu á nýjan leik. Það sýna líka óhrekjanlegar tölur.

Það er vel þekkt fyrirbæri þegar hagkerfi er að reisa sig upp úr samdrætti og lægð að þá er ákveðin tímatöf í því að störfum sem slíkum fari að fjölga vegna þess að það sem fyllist fyrst í eru hlutastörfin og þar sem yfirvinna hefur verið skorin út o.s.frv. Oft má búast við hálfs til eins og hálfs árs töf í því að störfum fari að fjölga að fullu í samræmi við hagvöxt eftir að hann verður. Þetta tímabil erum við Íslendingar búnir að ganga í gegnum frá síðari hluta árs 2010 út árið 2011 og inn á þetta ár. Margir aðrir mælikvarðar sýna það að undirliggjandi styrkur hagkerfisins er að aukast, sem er ávísun á fleiri störf í framtíðinni.

Ég bendi hv. þingmanni á að skoða hvernig beinu skattarnir hafa verið að gefa meira af sér á þessu ári. Tekjuskattur, útsvar og tryggingagjald eru að sjálfsögðu til marks um það. Umtalsverður tekjuauki ríkis og sveitarfélaga er til marks um það að vinnumagnið er að aukast. Sömu vísbendingar gefa veltutöluaukningar í mörgum atvinnugreinum, svo sem ferðaþjónustu, sjávarútvegi, hönnun, störfum arkitekta, (Forseti hringir.) verkfræðinga o.s.frv. Batinn er því hafinn. Hversu kraftmikill hann er má lengi deila um (Forseti hringir.) en ég held að það eigi sér tiltölulega augljósar skýringar að fjölgun starfa er hægari en sem nemur hagvexti (Forseti hringir.) og aukningu vinnumagns í upphafi svona tímabils.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á tímamörkin.)