141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

atvinnumál.

[15:24]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef hv. fyrirspyrjanda, flokkssystkinum hennar eða öðrum líður betur með því að trúa að allt sé á niðurleið á Íslandi (Gripið fram í.) fæ ég lítið við því gert.

Það er algjörlega á hreinu að þegar hagvöxtur er upp á 2,5–3% tvö ár í röð og því spáð á hinu þriðja þá segir það líka sína sögu. Það er ávísun á aukin umsvif í hagkerfinu samkvæmt öllum náttúrulögmálum, og samkvæmt öllu sem menn þekkja fyrr úr sambærilegum tilvikum er það ávísun á fjölgun starfa. Það getur átt sér eðlilegar skýringar að sú fjölgun kemur ekki fyrr en komið er svolítið inn í þessa hagsveiflu. Ég fór yfir það hér áðan.

Það er merkilegt að heyra fólk tala til dæmis enn um þetta tvennt, að hér sé bara stórfelldur fólksflótti sem skýri það að skráð atvinnuleysi hafi minnkað eða þá að menn séu búnir að missa bótarétt í stórum stíl. Hvorugt er rétt. Það er einfaldlega þannig að frá og með árinu 2009 hefur jafnt og þétt dregið úr tapi (Forseti hringir.) í fólksjöfnuði milli Íslands og erlendra landa, m.a. vegna atvinnuátaksins sem farið var í hafa sárafáir dottið út af fjórða árinu og yfir á framfærslu (Forseti hringir.) sveitarfélaga. Það mælist í mesta (Forseti hringir.) falli í fáeinum hundruðum. (Gripið fram í.)