141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gjaldeyrisviðskipti.

[15:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að við verðum öll að viðurkenna það að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon er hugaður maður. Hann þorir sko að vera á móti staðreyndum, alveg miskunnarlaust. Það skiptir engu máli þó að eitthvað komi fram hjá Hagstofunni eða þessi forseti ASÍ vitni í það, hann þorir sko alveg að vera á móti þeim staðreyndum, svo mikið er víst.

(Forseti (ÁRJ): Fyrirspurn til fjármálaráðherra?)

Hvað varðar fyrirspurnina til fjármálaráðherra er hún í þrennu lagi, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hefur nokkuð verið rætt í fjölmiðlum um útgreiðslur á gjaldeyri og hefur Seðlabankinn meðal annars komið með athugasemdir út af því, sem eru þess eðlis að þær kalla á mikla umræðu og við munum ræða sérstaklega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það sem ég mundi vilja fá að vita hjá hæstv. ráðherra er: Telur hæstv. ráðherra ekki vanta nokkuð á það að verklagsreglur séu skýrar? Telur hæstv. ráðherra ekki sömuleiðis heppilegt að eftirlit væri með þessari framkvæmd á gjaldeyrishöftunum, t.d. með því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mundi fylgjast með þeim og fengi upplýst um allar upphæðir sem væru yfir 500 milljónum eða milljarði?

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, tengist það þessu máli óbeint að nú liggur fyrir að kröfuhafar gömlu bankanna eru að stærstum hluta erlendir vogunarsjóðir. Nú er ljóst að þegar nauðasamningar verða kláraðir, hvenær sem það verður gert, en það fer væntanlega að styttast í það, þá munu þeir fá beint eignarhald á íslensku bönkunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að endingu: Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því út af eðli þeirra fjárfesta sem eru ekki að hugsa um rekstur til langs tíma og alls ekki bankarekstur á Íslandi? Mun hæstv. ráðherra og ríkisstjórn grípa til einhverra aðgerða til að (Forseti hringir.) koma í veg fyrir augljósa hættu?