141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gjaldeyrisviðskipti.

[15:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Hv. þingmaður talar um útgreiðslu á gjaldeyri og vitnar í fjölmiðlaumfjöllun þar um. Nú geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður sé að tala um stórar útgreiðslur sem hefðu þá áhrif á stöðu krónunnar. Ég held að útskýringar Seðlabankans hvað það varðar hafi verið skýrar, þ.e. að svo stórar summur sem þar var rætt um hefðu auðvitað, ef þær greiðslur hefðu átt sér stað, umsvifalaust komið fram í stöðu krónunnar okkar. Þar með vildi Seðlabankinn meina að það þyrfti ekkert að velta þessu fyrir sér meir, svo stórar útgreiðslur hefðu ekki átt sér stað.

Hv. þingmaður spyr um verklagsreglur og hvort þær þurfi ekki að vera skýrar. Það er ákveðið með lögum hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar afgreiðslu undanþágubeiðna og verklagsreglur Seðlabanka Íslands breyta ekki þeim skilyrðum. Síðan er bankinn með innanhússreglur um ferilinn, hvernig þetta á sér stað, en grunnprinsippin koma í gegnum lögin. Nú hef ég ekki sjálf séð þessar verklagsreglur en hef rætt um þær við seðlabankastjóra.

Varðandi eftirlit hefur Ríkisendurskoðun tekið út bæði verklagsreglurnar og útgreiðslurnar og gefið því öllu saman ágætiseinkunn. Ríkisendurskoðun hefur því farið yfir þetta, stjórn (Forseti hringir.) Seðlabankans og eins er ákveðið með lögum hvernig á að fara með þessi mál.