141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held við getum öll verið sammála um að starfsfólk Landspítalans hafi sýnt mikinn dugnað og fórnfýsi við erfiðar aðstæður frá hruni. Spítalinn og heilbrigðiskerfi okkar sem hann er grunnstoðin í hefur verið í fremstu röð og það er óásættanlegt fyrir okkur sem þjóð að það breytist. Hjá spítalanum hefur öryggi sjúklinga verið í fyrirrúmi. Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, sagði í nýlegu útvarpsviðtali að öryggi sjúklinga væri ekki í hættu en spítalinn væri á mjög fínni línu hvað það varðaði. Aðalhlutverk spítalans sé að öryggi sjúklinga sé ekki ógnað. Það geti hins vegar farið svo að örygginu verði ógnað og þá verði frá því sagt.

Tækjakostur Landspítalans er orðinn að miklu vandamáli sem hefur hlaðist upp núna síðustu ár. Í ályktun læknaráðs spítalans segir að niðurskurðarkrafan á Landspítala hafi verið mikil síðustu ár og starfsemin líði fyrir hið skerta fjármagn. Eðlilegt viðhald og endurnýjun á tækjabúnaði spítalans hafi setið á hakanum og stefni í óefni í þeim málum. Bæði sé þörf á nýjum tækjabúnaði til að mæta eðlilegri þróun læknavísindanna og endurnýjun á gömlum tækjum sem ekki séu lengur nothæf.

Afleiðingar málsins, virðulegi forseti, eru mjög alvarlegar í mörgu tilliti. Ein birtingarmynd þess er að erfiðara er en áður að manna stöður sérfræðinga. Hæstv. velferðarráðherra sagði á almennum læknaráðsfundi hjá Landspítalanum í vor að hann hefði ekki áhyggjur af því að læknar sem búsettir væru erlendis komi ekki til Íslands og þannig verði yngt upp í stétt lækna. Ég held að hæstv. ráðherra meti stöðuna ekki rétt. Stjórn læknaráðs Landspítalans hefur ályktað sérstaklega um málið og telur það mikið áhyggjuefni að eðlileg endurnýjun eigi sér ekki stað meðal sérfræðinga spítalans. Það endurspeglist meðal annars í færri umsóknum um stöður, og er þá verið að vitna í sérfræðistöður þar sem fjöldi umsókna hefur breyst mjög.

Tækjakostur Landspítalans spilar stórt hlutverk í þessu. Ungt fólk sem lokið hefur sérfræðinámi erlendis verður að geta komið heim til starfa í sama umhverfi og það hefur þjálfast upp í í námi sínu erlendis. Sem dæmi um þetta má nefna þvagfæraskurðlækningar þar sem svokallaðar robotlækningar hafa verið að ryðja sér til rúms. Þeir sem hafa verið að stunda nám í þeim fræðum erlendis stunda það nám í því umhverfi. Hér er ekki boðið upp á það umhverfi fyrir þá ef þeir vilja koma heim. Það er eins og að fá til landsins góðan hljóðfæraleikara sem hefur ekkert hljóðfæri til að spila á.

Til er svokallaður bráðalisti yfir þau tæki sem nauðsynlegt er að kaupa strax. Hann hljóðar upp á um milljarð. Þetta er vandamál sem við ýtum ekki á undan okkur. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar birtist í fjárfestingaráætlun hennar frá því í vor og mér finnst með ólíkindum að ekkert skuli fyrirfinnast þar um auknar fjárfestingar í þennan brýna málaflokk. Ég vil spyrja ráðherra hvort hann hafi við afgreiðslu áætlunarinnar ekki lagt áherslu á að tekið yrði tillit til þessa alvarlega ástands.

Það vantar 3 milljarða í brýnar fjárfestingar og ef litið er á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar getum við séð að að hennar mati virðist vera nægt fé til að fara í ýmis verkefni. Sem dæmi má nefna Kvikmyndasjóð upp á 488 milljónir, verkefnasjóð skapandi greina upp á 200 milljónir, netríkið Ísland upp á 200 milljónir, grænan fjárfestingarsjóð upp á 1.000 milljónir, grænar fjárfestingar upp á 50 milljónir, grænkun fyrirtækja upp á 500 milljónir, vistvæn innkaup upp á 200 milljónir, Náttúruminjasafn – sýning upp á 500 milljónir, Hús íslenskra fræða upp á 800 milljónir og Húsafriðunarsjóð upp á 200 milljónir.

Þetta eru samtals 4.388 milljónir sem ríkisstjórnin ætlar, samkvæmt fjárfestingaráætlun, að setja í þessi gæluverkefni á næsta ári en horfir algerlega fram hjá þeirri brýnu þörf sem er í heilbrigðiskerfi landsins. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum hugmyndum en arfavitlaus er þessi forgangsröðun. Ekki satt?

Er þetta sú forgangsröðun sem hæstv. ráðherra vill sjá eða varð hann undir með sjónarmið sín í ríkisstjórninni? Hvað átti hann við þegar hann sagði í þættinum Á Sprengisandi nú um helgina að það væri Alþingis að breyta þessu? Ég vil fá svör ráðherrans við því. Það ætti ekki að vera vandamál, þegar þessi forgangsröð er skoðuð, að leysa þessi mál með myndarlegum hætti ef einhver vilji væri til þess.