141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í pistli á heimasíðu Landspítalans, sem forstjóri Landspítalans skrifaði 24. ágúst sl., segir, með leyfi forseta:

„Töluvert hefur verið fjallað um tækjaþörf spítalans á síðustu vikum en fyrir okkur sem vinnum á spítalanum er það ekkert nýtt, við höfum varað við þessu í langan tíma og þetta er uppsafnaður vandi til fjölmargra ára. Vandinn hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin 10 ár, hann var til staðar löngu fyrir bankahrunið og áður en niðurskurðurinn varð svona mikill. Um leið og frekari fregnir berast af fjármálum spítalans verðið þið,“ — gott starfsfólk — „eins og venjulega, fyrst til að vita af þeim.“

Auðvitað er verið að skoða þessi mál. Það er verið að gera það í ríkisstjórn og það verður gert í fjárlaganefnd við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Þau vekja hins vegar athygli, þessi orð forstjóra Landspítalans um hversu langvarandi vandi þetta er. Ef litið er til útgjalda á föstu verðlagi ársins 2012 til tækjakaupa Landspítalans undanfarin 10 ár þá lækkuðu þau frá árinu 2002 fram að hruni um 44%. Útgjöld á fjárlögum til tækjakaupa lækkuðu á Landspítalanum um 24% á þeim tíma sem við sögðumst hafa úr nógu að moða og hafa nóga peninga til að gera hvaðeina sem við vildum. Hvað var það þá sem skorti? Það voru ekki fjármunirnir, það var viljinn. Það var pólitísk stefna fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra sem þá stjórnuðu landinu og ríkisstjórnar að setja ekki fjármuni til tækjakaupa. Peningarnir voru til en viljinn var ekki fyrir hendi.

Nú, þegar við stöndum í hruninu upp fyrir haus, kemur þetta sama fólk og segir við okkur: Hver er viljinn hjá ykkur? Hann er til staðar. Þessi mál verða endurskoðuð. Það verður fjallað um þau í fjárlaganefnd eins og ég sagði áðan. Það er verið að fjalla um þau núna í velferðarráðuneytinu og á vettvangi ríkisstjórnarinnar og það verður (Forseti hringir.) brugðist við þeim vanda sem þar er við að etja, bæði á Landspítalanum og á öðrum sjúkrahúsum á landinu.