141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:48]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þessi umræða um Landspítalann er bæði þörf og mikilvæg. Sú staða sem er á Landspítalanum í dag er alls ekki boðleg og ég fagna því að við erum að ræða það mál hér. Það er einfaldlega búið að skera of mikið niður í fjárveitingum til Landspítalans og það er óásættanlegt að halda áfram á sömu braut. Þetta er í rauninni bara birtingarmynd þeirrar forgangsröðunar sem núverandi ríkisstjórn hefur og hefur haft undanfarin ár við skipan fjárlaga. Hér eru fjármagnseigendur teknir fram fyrir veikt fólk og heilbrigðiskerfið. Það fara 90 milljarðar á næsta ári í vaxtagreiðslur til fjármagnseigenda.

Hér þarf að forgangsraða í réttri röð og með hagsmuni almennings í huga. Það bætir ekkert þá hagsmuni neitt að ræða hér hvað gerðist árin 2002–2007. Vissulega eiga menn sem réðu hér ríkjum þá einhverja sök á máli en þeir sem ráða hér ríkjum í dag eru þeir sem eiga að taka ákvarðanir um næsta ár, ekki heilbrigðisráðherrann sem var hér fyrir sjö árum. Það skiptir einfaldlega máli að sá heilbrigðisráðherra sem nú situr sýni kjark ásamt hæstv. fjármálaráðherra til þess að semja við fjármagnseigendur með góðu eða illu um frestun á einhverjum af þessum vaxtagreiðslum. Hófleg frestun á þessum vaxtagreiðslum upp á 90 milljarða, upp á kannski 5 milljarða á næsta ári er einungis rétt rúmlega 5% af fjármagnstekjum þeirra. Að setja þá upphæð í Landspítalann mundi bæta stöðu spítalans til mikilla muna og senda rétt skilaboð til spítalans, til starfsfólksins og til þjóðarinnar um nýja og réttlátari forgangsröðun fjármuna í heilbrigðismálum.

Mórall starfsfólks á Landspítalanum er orðinn mjög slæmur og þegar slík staða er komin upp á sjúkrahúsi mun það fyrr eða síðar hafa áhrif á þjónustuna. Við megum ekki láta það gerast. Ég skora einfaldlega á báða hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að grípa til aðgerða í þessu máli.