141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja máls á því mikilvæga máli sem við ræðum hér. Öll viljum við, sama hvar í flokki við erum, góða heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa landsins og eigum að sjálfsögðu að hafa metnaðarfull markmið í þeim efnum. Mér heyrist miðað við yfirlýsingarnar og umræðuna í salnum flestallir hér, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, vera sammála um að það þurfi að grípa til aðgerða vegna ástandsins á Landspítalanum. Við þekkjum öll, og það hefur komið fram hér í umræðunni, hversu mikill niðurskurður hefur verið á stofnuninni og sérstaklega ber að hrósa starfsfólki Landspítalans fyrir það með hvaða hætti þeim hefur tekist þrátt fyrir allt að viðhalda góðri þjónustu og tryggja öryggi þeirra sjúklinga sem inn á spítalann þurfa að koma. Því má aldrei gleyma.

Ég fagna því, ef það er rétt sem hér kemur fram, að sett verði fram áætlun um það með hvaða hætti þurfi að ráðast í endurnýjun tækjakaupa. En ég skil einfaldlega ekki vinnubrögðin, frú forseti, ef þetta er stefnan og ef þetta er áhugi manna, hvers vegna sú áætlun var ekki lögð fram fyrir löngu og þá tekin fyrir í fjárlagavinnunni og hvers vegna það kemur ekki fram í fjárlögum, ef þetta er viljinn og stefnan, að setja eigi aukið fé í að fjármagna tækjakaup fyrir Landspítalann. Hvers vegna kom það ekki fram í fjárlögum þegar þau voru lögð fram hér um daginn? Það væri ágætt að fá svör við því frá hæstv. ráðherra.

Síðan aðeins vegna stóra verkefnisins um hvort, hvernig og með hvaða hætti eigi að byggja og þá fjármagna nýjan Landspítala. Það er alveg ljóst að það verkefni sem við höfum haft til skoðunar kostar mikið fé og til stendur að ný úttekt komi á öllum rekstraráætlunum og öðrum áætlunum varðandi þá nýbyggingu núna í októbermánuði og við munum að sjálfsögðu skoða hana af athygli. En auðvitað snýst starfsemi, (Forseti hringir.) hvort sem það er starfsemi Landspítalans eða annarra stofnana, ekki öll um skelina heldur um innra starfið. Við eigum auðvitað að reyna að tryggja starfsfólki okkar þar eins gott starfsumhverfi og hægt er og (Forseti hringir.) við getum byrjað með tækjakaupum.