141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir að hefja þessa umræðu. Ég held að við getum öll verið sammála um að staðan á Landspítalanum og ekki raunar bara Landspítalanum heldur á heilbrigðisstofnunum hringinn í kring um landið hvað varðar tæki og tól sé verulegt áhyggjuefni.

Við getum svo sem staðið hér og bent á ýmis tímabil og ásakað hvert annað um að þessi hafi skorið niður eða hinn en ég hef samt meiri áhuga á því að leggja eitthvað til málanna sem getur hugsanlega hjálpað við að leysa þennan vanda. Ég held að við höfum öll áhyggjur af þessu og að við viljum bæta úr.

Við, þrír þingmenn Framsóknarflokksins, höfum lagt fram frumvarp til laga um skattaívilnanir í þágu tilgreindra félagasamtaka. Það kom einmitt fram í máli hæstv. ráðherra að um 50% af þeim tækjakaupum sem eru á Landspítalanum eru vegna gjafafjár. Ég held að það geti myndast mikil samstaða á þingi um að gera breytingar til að styðja við tilgreind félagasamtök og góðgerðasamtök hvað varðar að tryggja þeim aukið fé þannig að þau geti þá stutt betur við Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir. Í frumvarpi mínu, en meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson og Siv Friðleifsdóttir, er einmitt bent á það að íslensk félagasamtök njóta ekki sömu skattaívilnana og sambærileg samtök í nágrannalöndunum. Þá er sérstaklega bent á að einstaklingum hér á landi er ekki leyfilegt að draga gjafir til góðgerðafélaga frá skattskyldum tekjum sínum líkt og almennt er heimilt í löndum annar staðar í Evrópu og í Norður-Ameríku. Einnig hafa frjáls félagasamtök þurft að greiða fullan erfðafjárskatt af dánargjöfum sem þeim hefur verið ánafnað. Ég held að það gæti verið mjög jákvætt skref að samþykkja þessa breytingu (Forseti hringir.) til að styðja þessi frábæru samtök. Ég vil til dæmis nefna kvenfélög sem hafa gefið um 500 milljónir á undanförnum 10 árum og þar með er ekki talið framlag Kvenfélagsins Hringsins sem (Forseti hringir.) hefur eins og þekkt er meira og minna stutt við rekstur Barnaspítala Hringsins.