141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:57]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka upp þessa umræðu og tel að hún verði ekki sú síðasta á þessum vetri. Ég held að við munum eiga nokkrar sérstakar umræður um heilbrigðisþjónustuna og hvert við stefnum í þeim málum á komandi árum. Umræðan verður hluti af þeim pólitísku kosningamálum sem við munum takast á um í vetur.

Hæstv. forseti. Áratuga uppsafnaður vandi var það sem sprakk framan í okkur strax eftir hrun þegar tvennt lagðist saman, þ.e. niðurskurður í opinberum rekstri og þar með í heilbrigðisþjónustunni og fjárskortur hjá líknar- og frjálsum félagasamtökum sem treyst hafði verið á og er treyst á sem styrktaraðila til að stuðla að tækjakaupum.

Það er treyst á gjafafé til valinna lækningatækja. Það má segja að það sé í anda frjálshyggjustefnunnar að báknið skuli burt og treyst sé á að fjármagn komi annars staðar frá. En þörf á endurnýjun tækjabúnaðar Landspítala – háskólasjúkrahúss og annarra heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið er komin á alvarlegt stig. Þetta á ekki bara við um Landspítalann heldur allar heilbrigðisstofnanir eftir áralanga vanrækslu. Það er kostnaðarsamt að trassa eðlilegt viðhald og endurnýjun á fasteignum og tækjum. Það var gert í áratug fyrir hrun og því þarf sérstakt átak á komandi árum. Það þarf að setja upp forgangslista sem verið er að gera. Það þarf að setja upp fjárfestingaráætlun sem verið er að gera til kaupa á tækjabúnaði á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Það er nauðsynlegt að vinna upp vanrækslu liðinna ára.

Sérfræðingar á einkastofum geta endurnýjað tæki sín því að (Forseti hringir.) kaupverðið kemur fram í gjaldskrá sem hluti af (Forseti hringir.) gjaldskrárkostnaði.