141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gistináttagjald.

113. mál
[16:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langaði að koma því hér á framfæri að gistináttagjald sem slíkt er mjög sniðugur og góður skattur og tilvalin aðferð til að ferðaþjónustan og þau fyrirtæki sem eru í ferðaþjónusturekstri nái að veita fjármuni til verndunar náttúrunnar, sem brýn þörf er á vegna mikils ágangs. Slíkt gjald þarf að vera sérstaklega eyrnamerkt á þeim reikningum sem ferðamenn fá. Þá þarf það einfaldlega að heita náttúruverndargjald vegna þess að það á að nota það til að vernda viðkvæma staði fyrir ágangi ferðamanna. Slíkt gjald á að taka út fyrir sviga á reikningum sem ferðamenn fá. Það á að veita það allt til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Við sjáum slíkt fyrirkomulag í löndum í kringum okkur, til dæmis ef við gistum á hóteli í París er þar bara sérstakur skattur eða gjald sem lagt er á gistingu á hótelum til varðveislu menningarminja í París. Það gerir enginn athugasemdir við það, öllum finnst það sjálfsagt. Góð útfærsla á gistináttagjaldi mundi skila ríkissjóði umtalsverðum tekjum, það þarf að útfæra það gjald betur miklu frekar en leggja það niður.