141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gistináttagjald.

113. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör sem voru greinargóð enda spurningarnar kannski eða vonandi venju fremur skýrar af hálfu þess þingmanns sem hér stendur. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra: Er það þá rangt sem eftir ráðherranum var haft þegar tilkynnt var um hinar miklu hækkanir á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna? Því að í þeim fréttum kom sá rökstuðningur fram að þetta gjald hefði ekki skilað sér sem skyldi til ríkissjóðs og einhver vanhöld væru á því. Það kom fram í fréttaflutningi og eftir því sem ég skildi fréttirnar á veffjölmiðlum hefði það verið haft eftir hæstv. ráðherra. Ef það er rangt eftir haft er rétt að það komi hér fram vegna þess að miðað við svörin er gjaldið að skila sér í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru og þessi gjaldtaka öll byggði á á sínum tíma og við ræddum hér í löngu máli í fjárlagagerðinni fyrir ári.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þessa umræðu og hv. þm. Þór Saari fyrir að blanda sér inn í hana.