141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag.

68. mál
[16:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Já, varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns, hvort vilji sé til að taka á þessum málum og breyta lögum þar sem við á, ganga frá þjónustusamningi, þá er svarið mjög afdráttarlaust játandi. Það hefur verið starfandi og er starfandi nefnd undir forsæti Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi alþingismanns, sem leiðir þá vinnu.

Varðandi þær þrjár spurningar sem formlega er beint til mín ætla ég að hafa nokkur orð um hverja þeirra.

Í fyrsta lagi er spurt:

Hvenær er gert ráð fyrir að gengið verði frá þjónustusamningi milli ráðuneytisins og löggilts ættleiðingarfélags með það að markmiði að tryggja milligöngu um ættleiðingar, sbr. 35. gr. laga nr. 130/1999?

Þessu er til að svara að innanríkisráðuneytið hefur verið í viðræðum við félagið Íslensk ættleiðing um gerð þjónustusamnings en það er eina löggilta ættleiðingarfélagið á Íslandi. Drög að slíkum samningi liggja fyrir og verða fullunnin í samvinnu ráðuneytisins og félagsins þegar ljóst verður hvaða fjárveitingu félagið fær sem að sjálfsögðu er komið undir fjárveitingavaldinu sem er að finna í þessum sal.

Í öðru lagi er spurt:

Hversu langt er það tímabil orðið þar sem enginn slíkur samningur hefur verið í gildi?

Ráðuneytið hefur ekki áður gert sérstakan þjónustusamning við löggilt ættleiðingarfélag vegna starfsemi þess en kveðið er á um starfsemi og skyldur ættleiðingarfélaga í lögum um ættleiðingar og reglugerð um ættleiðingarfélög. Í samræmi við tillögur starfshóps um stefnumótun í ættleiðingarmálum þykir rétt að gera slíkan samning þar sem kveðið verði nánar á um verkefni félagsins.

Síðan er spurt í þriðja lagi:

Hverjar eru helstu skyldur slíks félags að lögum að mati ráðuneytisins og hafa orðið miklar breytingar á því mati ráðuneytisins undanfarin ár?

Þessu er eftirfarandi til að svara: Ísland er aðili að Haag-samningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa og með aðild erum við skuldbundin til þess að viðhafa tiltekið verklag við meðferð ættleiðingarmála. Stjórnvöldum er heimilt samkvæmt samningnum að fela löggiltum ættleiðingarfélögum ákveðin verkefni í tengslum við meðferð mála og meðal þess sem Íslenskri ættleiðingu hefur verið falið er að annast framkvæmd undirbúnings námskeiða fyrir verðandi kjörforeldra, að hafa milligöngu við meðferð ættleiðingarmála með því að senda upplýsingar varðandi kjörforeldra til erlendra ríkja og taka við upplýsingum um börn þaðan, að annast upplýsingagjöf til verðandi kjörforeldra, annast þjónustu eftir ættleiðingu og að senda svokallaðar eftirfylgniskýrslur til upprunaríkja í samræmi við kröfur viðkomandi ríkja.

Ekki hafa orðið miklar breytingar á skyldum félagsins undanfarin ár en starfsemi þess hefur verið að þróast eins og á við um starfsemi löggiltra ættleiðingarfélaga erlendis. Þá hefur félagið nýlega stofnað til ættleiðingarsamstarfs við nýtt ríki, Tógó, auk þess sem fleiri ríki kunna að bætast í hóp samstarfsríkja í framtíðinni.

Almennt vil ég að lokum segja um þessi mál að hér er hreyft við afar mikilvægum málaflokki og ég tek undir með hv. þingmanni að mjög mikilvægt er að við stöndum vel að verki. Bágur fjárhagur ríkissjóðs hefur óneitanlega sett strik í reikninginn hvað þessa starfsemi snertir, eins og svo fjölmargt annað, en við erum að bæta í. Tillögur eru uppi um að auka framlagið til þessara mála enda er það svo að mikið af því starfi sem hefur verið unnið á vegum félagsins Íslensk ættleiðing hefur verið unnið í sjálfboðastarfi. Það gengur framan af en til lengri tíma litið er það ótækt að svo sé og við verðum að búa vel að þessu félagi og að þessari starfsemi sem ég tel afar mikilvæga.