141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag.

68. mál
[16:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu sem þrír þingmenn hafa tekið þátt í. Ég þakka fyrst málshefjanda fyrir að vekja máls á málinu.

Ég er spurður sérstaklega af hv. þm. Kristjáni Möller hvað ég hafi lagt til í fjárlagafrumvarpinu. Ég er ekki með þær tölur á reiðum höndum nú, en hygg að framlagið til Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári sé um 9,1 millj. kr., ef ég man rétt, ég hef ákveðinn fyrirvara á í máli mínu. Síðan er lagt til að bæta um betur á fjáraukalögum til að bæta stöðu félagsins á þessu ári og einnig á komandi ári. Ég hygg, en með fyrirvara aftur, að ég geti nefnt töluna 15 millj. kr. Ég hef fyrirvara á þeim upphæðum sem ég hér nefni.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. Hún er góð. Við eigum að halda þessu máli á þann veg að við séum stöðugt á tánum um að gera eins vel og kostur er í þessu máli.