141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er brýn umræða. Hana þarf að taka á breiddina. Þau mannvirki sem hýsa flugþjónustuna á Reykjavíkurflugvelli eru einfaldlega til skammar og hafa verið um árabil. Þetta er líklega ljótasta flugstöð í höfuðborg í allri Evrópu. Þetta þarf að laga, en með sátt milli Reykjavíkuryfirvalda og ríkisins. Ég hvet ráðherra til aðgerða.

Það er einfaldlega svo að fólk sem flýgur til dæmis frá Akureyri til Reykjavíkur og áfram til Vestmannaeyja þarf að taka sér leigubíl við flugstöðina í Reykjavík til að keyra um Hringbraut og yfir á svæði flugfélagsins Ernis, til að komast til Vestmannaeyja. Það er með ólíkindum að flugsamgöngur innan lands séu þannig að menn þurfi að taka leigubíl á kafla leiðarinnar. Það er til marks um í hvaða ógöngum þetta mál er.

En (Forseti hringir.) aðalatriðið er þetta: Burðugt innanlandsflug á Íslandi verður ekki rekið öðruvísi en með flugvelli í Reykjavík.