141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sem mestu máli skiptir sé að við vöndum til þeirra verka sem við ráðumst í. Það er staðreynd að margir voru því fylgjandi að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, annaðhvort á nýjan stað í borgarlandinu eða jafnvel leggja hann niður og færa allt flugið til Keflavíkurflugvallar. Það verður horfið frá þeirri hugsun sem reyndar var nú aldrei við lýði í samgönguráðuneytinu, vegna þess að ráðherrar þar hafa verið á einu máli um ágæti þess að hafa flugvöllinn í Reykjavík. Síðan hafa margir ráðherrar reynt að fá úrbætur um þjónustu í fluginu, það á við um hv. fyrirspyrjanda líka, en seint hefur þokast í því efni.

Ég var nokkuð vongóður um að við værum að stíga einhver skref haustið 2010, en síðan hefur staðið á samningum borgarinnar við fjármálaráðuneytið. Það er ástæðan.

Hvað Isavia og Flugfélag Íslands varðar komu hugmyndir frá Flugfélagi Íslands sem gjarnan vildi sjálft reisa flugskýli. Það tel ég vera fráleitt. Það er fráleitt að einn rekstraraðili öðrum fremur eigi flugstöðina. Það er að sjálfsögðu Isavia sem á að hafa hana og það verk allt saman með höndum, ekki Flugfélag Íslands og ekki Ernir eða neitt annað flugfélag. Það er Isavia sem kemur til með að bera ábyrgðina af verkinu. Öðrum er frjálst að koma með hugmyndir um hvernig eigi að standa að verki, en það verk verður hjá Isavia, ekki einstökum rekstraraðilum.

Að lokum þetta: Ég vona að úr þessu leysist sem fyrst. En ég vil ekki óðagot sem yrði þess valdandi að við skerðum á einhvern hátt stöðu flugsins, öryggi flugsins, miðað við það sem nú er. Ég vil ekki samninga hvað sem það kostar. (Forseti hringir.) Ég vil samninga sem eru hagfelldir fyrir flugið og öryggi flugsins.