141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

fæðuöryggi.

139. mál
[17:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Íslendingar eru að hlutfalli einhverjir mestu fæðuframleiðendur í heimi og er það vel. Við verðum að standast þar samanburð í gæðum og verði. Auðvitað þurfum við á einhverjum innflutningi að halda inn í framtíðina, en okkur ber að standa vörð um fæðuöryggi. Ég fagna þessari umræðu sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur hér á Alþingi. Þetta er efni sem við þurfum að skoða mjög rækilega og spannar víðfeðmt svið. Við höfum staðið okkur vel hvað fiskinn varðar og hinn hefðbundna landbúnað.

Ég er mjög hugsi yfir því hvernig við getum sótt frekar fram þegar kemur að grænmeti og eftir atvikum ávöxtum, og vil beina spurningu til hæstv. ráðherra um það. Við erum ekki sjálfbær í þeim efnum. Við framleiðum um það bil 40% af því grænmeti sem við neytum árlega, en 60% er flutt inn. (Forseti hringir.)

Hér má spyrja: Er hæstv. ráðherra með einhverja ákveðna stefnu um framleiðslu á grænmeti? Þar eru tækifærin (Forseti hringir.) mikil og þar þurfum við að huga að raforkusölu svo dæmi sé nefnt.