141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

fæðuöryggi.

139. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sem kom inn í þessa umræðu.

Ég vil fagna því að hæstv. ráðherra hyggst setja í gang vinnu við að móta langtímastefnu um fæðuöryggi því samanburður á Íslandi og nágrannalöndum okkar hefur sýnt að við stöndum að einhverju leyti á dálítið veikum fótum hvað það snertir. Það kann að stýrast að hluta til af legu landsins og hversu háð við erum innflutningi, en engu að síður er full ástæða til að taka þetta mál til mjög ítarlegrar skoðunar. Þetta er mál sem ætti að vera hægt að vinna á þverpólitískum grunni og ættu ekki að vera neinar deilur um það meðal Íslendinga að það er mikilvægt að efla fæðuöryggi þjóðarinnar.

Við sáum til að mynda þegar efnahagshrunið varð að menn höfðu áhyggjur af því að það væru einungis til kornbirgðir í landinu til nokkurra vikna. Svona spurninga mætti spyrja um fleiri þætti. Það geta komið upp áföll í heiminum. Við þekkjum það úr heimssögunni að það geta komið upp áföll, hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar vegna sem kalla á mikilvægi þess að skoða þennan málaflokk.

Ég vil hvetja ráðherra til að flýta þessari vinnu. Ég veit að sett var inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma að mótuð yrði stefna um fæðuöryggi og matvælaöryggi. Ég vil hvetja ráðherrann til að flýta þeirri vinnu og kalla sem flesta að henni, bæði úr greinum landbúnaðarins, sjávarútvegsins, úr hinum pólitísku flokkum og fleiri aðila. Um þetta á að geta ríkt full sátt meðal okkar Íslendinga, að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og gera það sem í okkar valdi stendur til að það megi vera sem best.