141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.

92. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans fyrir málinu og fyrir framlagningu þess. Hér er á ferðinni býsna tæknilegt úrlausnarefni sem stuðlar að því að auka öryggi í viðskiptum manna og laga lagaumhverfið að breyttum samfélagsháttum, m.a. að því að viðskipti geti verið varin á hvaða tíma sólarhrings sem vera skal. Það er fagnaðarefni að fá þetta mál, og fleiri sem hæstv. ráðherra mælir fyrir hér í dag, svo snemma fram á þinginu, því það er mikill málafjöldi sem þingið á von á úr Stjórnarráðinu til umfjöllunar á fremur stuttum þingvetri. Því er gott að geta tekið til óspilltra málanna strax í upphafi þings við að vinna úr þeim. Ég treysti á gott samstarf í hv. efnahags- og viðskiptanefnd við úrlausn þessa máls svo að það megi verða að lögum hér á haustþingi.