141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

ársreikningar.

94. mál
[17:38]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þá mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum. Meginefni er starfrækslugjaldmiðill og skoðunarmenn og endurskoðendur.

Frumvarp þetta var lagt fyrir á 140. löggjafarþingi, en náðist ekki að mæla fyrir því á því þingi, hvað þá að það fengi frekari umfjöllun.

Þetta frumvarp er, eins og áður sagði, lagt fram samhliða og tengist frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bókhald.

Með frumvarpinu eru sömuleiðis lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem samþykkt voru þá á vorþingi. Töluverðar breytingar voru gerðar á stöðu og lögum og reglum um endurskoðendur, þar kemur hið sama fram að samkvæmt þeim lögum geta nú ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina.

Meginbreytingarnar sem hér eru lagðar til, til að breyta frá því sem ella er, eru að núgildandi lög leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu.

Það eru einnig lagðar til breytingar á 8. gr. laganna sem fjallar um þau skilyrði sem félög verða að uppfylla til að fá heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Ekki er um að ræða efnisbreytingu á ákvæðinu, en í ljósi reynslu sem komin er á veitingu þessarar heimildar er lagt til að gera ákvæðið skýrara.

Að auki er lagt til í frumvarpinu að heimild félaga til að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku eða ensku í stað íslensku verði víkkuð út til annarra eða fleiri félaga en þeirra sem hafa heimild til að hafa reikningsskil í erlendum gjaldmiðli. Samræmist það því sem áður sagði um bókhaldslögin.

Sú heimild á sömuleiðis við þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi með alveg sama hætti, þ.e. þegar um erlent eignarhald eða erlenda stjórnarmenn er að ræða.

Í frumvarpinu er lagt til að aukið verði gagnsæi eignarhalds og atkvæðisréttar hluthafa í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Þannig verði félögum gert að upplýsa í skýrslu stjórnar með ársreikningi um að lágmarki 10 stærstu hluthafa og alla ef þeir eru færri en 10 og hundraðshluta hlutafjár þeirra. Þetta er í sjálfu sér nýtt sjálfstætt efnisatriði, en við teljum að það sé tvímælalaust til bóta að skerpa og skýra á upplýsingaskyldunni með þessum hætti.

Þá er loks lagt til að viðmiðunarfjárhæðir í lögunum verði hækkaðar, enda hefur þeim ekki verið breytt síðan árið 2000. Að öðru leyti er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Hæstv. forseti. Ég legg sömuleiðis til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað áfram til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.