141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

innheimtulög.

103. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans fyrir málinu. Það verður ekki hið sama sagt um þetta mál og hin fyrri sem hann hefur mælt fyrir að það sé einfalt eða fyrst og fremst tæknilegt eða faglegt úrlausnarefni því að um innheimtumálin hefur auðvitað staðið mikil umræða. Þar hafa verið uppi mörg og ólík sjónarmið í samfélaginu og talsverð pólitísk umræða farið fram um þau mál. Ég vil í tengslum við þetta ágæta mál sem hér er lagt fram leggja áherslu á að við í nefndarstarfinu skoðum það í samhengi við þá vinnu sem fer nú fram á vegum ríkisstjórnarinnar og lýtur að neytendavernd á fjármálamarkaði. Það hefur skort talsvert á neytendaverndina þar og það snertir auðvitað líka innheimtuhliðina.

Ég hygg að ýmis ákvæði þessa ágæta frumvarps sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir lúti einmitt að því að taka á ýmsum þáttum í neytendaverndinni. Ég fagna meðal annars þeim ákvæðum sem hæstv. ráðherra boðar um að fá eftirlitsstofnuninni, Fjármálaeftirlitinu, tæki í hendur til þess að bregðast við grófum innheimtuaðgerðum eins og það er kallað. Ég hygg að það ákvæði sé ekki sett inn að tilefnislausu heldur vegna þess að því miður séu þess dæmi að neytendur hafi mátt sæta grófum innheimtuaðgerðum og skort hafi á úrræði til þess að hemja innheimtuaðila í því efni.

Um leið og ég fagna frumvarpi hæstv. ráðherra og þeim efnisatriðum sem hann hefur farið í gegnum og lýsi mig í öllum aðalatriðum sammála þeim hygg ég að þetta sé, af þeim málum sem hefur verið mælt fyrir á þessu síðdegi, það mál sem muni kalla á langviðamestu umfjöllunina og mestu umræðuna í nefndinni. Ég vona og veit að nefndarmenn verða allir af vilja gerðir að gefa þann tíma í þá umfjöllun sem þarf, þannig að komast megi sem lengst með málið og helst ljúka umfjöllun um það á þessum vetri.