141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

innheimtulög.

103. mál
[18:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikilvægt mál. Aðstæður á Íslandi eru nú um margt sérstakar hvað það varðar að í kjölfar hruns viðskiptabankanna versnaði skuldastaða þúsunda heimila hér á landi til mikilla muna, hjá sumum hverjum þannig að ekki verður undir staðið. Um leið má segja að nær öll heimili hafi lent í verri skuldastöðu en áður, skuldirnar hafa hækkað og eignirnar hafa minnkað að verðgildi. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að löggjafinn íhugi og skoði vel fyrirkomulag innheimtu á kröfum. Þar þarf auðvitað að ríkja jafnvægi, þ.e. að þeir sem lánað hafa fjármuni sína hafi allan rétt til að innheimta til baka en um leið að það sé gert þannig að um sé að ræða manneskjulega viðskiptahætti og meðalhófsins sé gætt enn og aftur, vegna þess að svo mörg þúsund heimili lentu á þeim stað að það er ekki spurning um greiðsluvilja heldur greiðslugetu. Margt í innheimtulöggjöfinni lýtur að því og möguleikum fyrirtækja eða einstaklinga til að innheimta kröfur og kalla fram þennan greiðsluvilja, en þegar málið snýst ekki um það hjá svo mörg þúsund heimilum heldur um greiðslugetuna þá má það ekki verða þannig að gengið sé of harkalega fram gegn þeim heimilum.

Þess vegna, virðulegi forseti, lagði ég hér fram fyrir nokkrum missirum frumvarp til breytingar á lögum um dráttarvexti sem eru meðal annars hugsaðir til þess að virkja greiðsluviljann, eins og sagt er stundum, þ.e. að skuldarinn standi frammi fyrir því að ef hann greiðir ekki skuld sína verði hún honum dýrari. Ég var þeirrar skoðunar þá en vegna þeirra aðstæðna sem eru komnar upp í íslensku samfélagi, vegna þeirrar miklu skuldsetningar sem heimilin standa frammi fyrir, hafi verið nauðsynlegt, í það minnsta í ákveðinn tíma, að takmarka mjög beitingu þess úrræðis að leggja á dráttarvexti á heimilin í landinu. Vegna þess, enn og aftur, að ekki er um viljaleysi að ræða hjá svo mörg þúsund heimilum heldur einfaldlega ómöguleika og getuleysi til að standa undir skuldbindingum.

Því vil ég fagna yfirlýsingum hv. þm. Helga Hjörvars og eins líka því sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra atvinnumála og nýsköpunar að farið verði vel yfir þessi mál í nefndinni og leitast verði við að viðhalda því jafnvægi sem þarf að vera í þessum málum. Og þá um leið að réttur neytendanna, réttur þeirra sem skulda, sé nægjanlega ríkur til þess að koma í veg fyrir einhvers konar ómanneskjulegar eða harðneskjulegar innheimtuaðferðir, sem því miður við þekkjum allt of mörg dæmi um.