141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 20. október nk. verður stór dagur í sögu þjóðarinnar þegar hún gengur að kjörborði og tekur afstöðu til nýrrar stjórnarskrár. Árið 1944 fengu Íslendingar stjórnarskrá en þá strax var viðurkennt að hún yrði aðeins til bráðabirgða og allar götur síðan hafa stjórnmálamenn á Alþingi freistað þess að hefja endurskoðun á stjórnarskrá en tekist illa upp. Þess vegna ákvað núverandi stjórnarmeirihluti að leita til þjóðarinnar og hófst það ferli með þjóðfundi árið 2010 en hugmynd að þjóðfundinum var meðal annars ættuð frá sjálfstæðismönnum á Alþingi.

Á þjóðfund komu 950 einstaklingar valdir með slembiúrtaki og sátu saman daglangt og skiptust á hugmyndum um hvernig ný stjórnarskrá gæti litið út. Stjórnlagaráð útfærði svo þær hugmyndir í drög að stjórnarskrá sem þjóðin tekur afstöðu til eftir fjórar vikur.

Það er mikilvægt að menn hafi í huga þetta orsakasamband: Sjálfstæðismenn lögðu meðal annars til að þjóðfundur yrði haldinn og þjóðfundur lagði fram hugmyndir að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin tekur svo afstöðu til 20. október. Það skýtur því óneitanlega skökku við að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli um helgina lýsa því yfir að hann muni greiða atkvæði gegn drögum að nýrri stjórnarskrá, stjórnarskrá sem unnin er úr hugmyndum sem komu fram á þjóðfundi sem hann studdi meðal annarra og lagði til.

Virðulegi forseti. Atkvæðagreiðslan 20. október snýst um hvort þjóðin eða flokkarnir skrifi nýja stjórnarskrá. Stjórnmálaflokkar hafa reynt í tæp 70 ár en lítið gengið því að á þingi gæta margir sérhagsmuna. Þjóðareign á auðlindum er dæmi um slíka sérhagsmuni. Þess vegna þurfti að koma ritun nýrrar stjórnarskrá til þjóðarinnar og þann 20. október verður stigið mikilvægt skref í því ferli. Um það snýst líka ágreiningurinn milli mín og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann segir nei við hugmyndum þjóðfundar og vill að flokkarnir á Alþingi skrifi nýja stjórnarskrá. Ég segi: Þjóðin á sjálf að ákveða hvernig ný stjórnarskrá lítur út og hún getur tekið stórt skef í þeim efnum 20. október næstkomandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)